141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

267. mál
[16:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Það var mikilvægt svar sem ég fékk frá hæstv. ráðherra. Ég geri mér grein fyrir erfiðleikunum sem steðja að í fjárlagagerðinni, en ég tek undir það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði áðan, það er til lítils að búa til metnaðarfullar framkvæmdaáætlanir sem er síðan ekki hægt að standa við. Þá er oft betur heima setið en af stað farið, ekki nema með fylgi það fjármagn sem þarf til að framkvæma. Það er fínt að gera áætlun til 2014 en það er lítils ef ekkert á að gera á árinu 2013.

En það er fagnaðarefni að sendiherraverkefninu verði tryggt fjármagn líka á næsta ári og fram til loka árs framkvæmdaáætlunar 2014. Það getur vel verið að ég komi með sundurliðaða skriflega fyrirspurn til að fylgja eftir einstaka liðum í framkvæmdaáætluninni. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ástæðu til að fara strax að vinna að endurskoðun framkvæmdaáætlunar til lengri tíma, til 2020, ef hann telur að það skili þeim árangri sem við höfum stefnt að.

Mér finnst mikilvægt að við séum uppbyggileg í gagnrýni okkar. Ég er sannfærð um að það hafi orðið miklar framfarir í málefnum fatlaðra á umliðnum árum. Við sjáum líka samfélagið breytast, þarfir fatlaðra breytast í takt við umhverfið og samfélagið. Það er hægt að tína margt til. Það er hægt að halda hér langa ræðu um þróun sem á sér stað innan menntakerfisins. Meginatriðið er að við veitum málefnalegt aðhald eins og varðandi það hvernig við framkvæmum og hrindum af stað framkvæmdaáætlun. Það gerum við hér með.

Ég hvet ráðherra til að koma með skýra stefnumörkun varðandi (Forseti hringir.) endanlega afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2013.