141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

einelti á vinnustöðum.

251. mál
[16:39]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir spyr hvort eitthvert talnaefni liggi fyrir um árangur. Svar mitt er nei, því miður. Það hefur ekki verið unnið enn þá. Menn hafa aftur á móti verið að gera slíkar kannanir. Það þarf lengri tíma til að sjá hver árangurinn verður. Það hefur verið gripið til aðgerða í skólunum — það hefur raunar verið í gangi í mörg ár, en þeim verður að fylgja enn þá betur eftir. Árangur á vinnustöðum á eftir að koma í ljós þegar fer að reyna á þær reglur sem verða settar af þeim hópi sem er að vinna núna þannig að við getum staðið betur að þessum málum.

Ég hef ekki fylgst náið með vinnunni og get því ekki sagt nákvæmlega hvað hefur verið tekið fyrir þar, en vonandi verður þessi umræða hér til þess að hópurinn ræði það sem kom fram hjá hv. þingmanni í fyrirspurn hennar, hvort við ættum að snúa við sönnunarbyrðinni í skólum og atvinnulífi. Mér finnst það koma mjög vel til greina vegna þess að við sjáum það alls staðar að á meðan menn eru alltaf að bíða eftir áverkum eða sýnilegum skaða sleppa ansi margir frá því að fá eðlilega sök, ef svo má segja, af þeim gjörningi að leggja annan í einelti.

Þetta snýr einnig að því sem hv. þingmaður ræddi um hvernig við tökum á vandamálinu þegar fólk hefur orðið fyrir einelti og hvernig við fylgjum því eftir og þjónustum það fólk í framhaldinu, þ.e. reynum að bæta stöðu þolenda. Þá þurfum við auðvitað að gera hvort tveggja eins og alltaf hefur verið ljóst. Við þurfum að hjálpa þolendum þannig að þeir losni út úr því hlutverki sem þeir oft komnir í, oftast sem veikasti aðilinn, en ekki síður að tryggja rétt þolenda. Ég mun vekja athygli nefndarinnar á því að skoða þetta sérstaklega í framhaldi af þessari fyrirspurn þannig að málið fái örugglega umfjöllun í þeim hópi sem vinnur að reglum og reglugerðum í þessu efni.