141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

rekstur framhaldsskóla.

250. mál
[16:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til mennta- og menningarmálaráðherra um rekstur framhaldsskóla er svohljóðandi:

Hver er afstaða ráðherra til þess að sveitarfélög taki við rekstri framhaldsskóla og hvernig hefur ráðuneytið brugðist við umleitunum þess efnis?

Árið 2007 samþykkti Samband íslenskra sveitarfélaga að hvetja til þess að sveitarfélög fengju í tilraunaskyni að taka yfir rekstur framhaldsskóla til að vinna að sveigjanlegri skilum á milli skólastiga. Síðan virðist frekar lítið hafa gerst og ég veit til þess að áhugi hefur verið hjá sveitarfélögum á að fá að taka í tilraunaskyni við rekstri framhaldsskóla. Þá hafa menn horft til þess, eins og í tilviki sveitarfélags Garðabæjar, að bjóða upp á áfangakerfi í efri bekkjum í grunnskólanum og styðja við nemendur sem hafa haft áhuga á að taka framhaldsskólaáfanga í fjölbrautaskólanum í sveitarfélaginu. Menn hafa séð fyrir sér að miklir möguleikar væru á að samþætta betur skólastigin með því að þetta væri á einni hendi.

Einnig hefur verið bent á að brottfall er mjög mikið í framhaldsskólanum. Talað er um að allt að því þriðjungur nemenda sem byrjar í framhaldsskóla hætti námi af einhverri ástæðu. Ef mögulegt væri að samþætta skólastigin betur, með því að þeir sem nú veita þjónustu í leik- og grunnskólum tækju yfir rekstur framhaldsskólanna, væri hugsanlega hægt að horfa frekar til þroska og hæfni nemenda en á ártalið sem skólakerfi okkar hefur byggst upp á. Einnig væri hægt að auka námsframboð og afköst, framleiðnina innan skólakerfisins, ef þetta væri komið á eina hendi.

Ég hefði því mikinn áhuga á að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til þess að sveitarfélögin tækju við rekstri framhaldsskólanna og hvort ráðherrann hefur tekið jákvætt í þær umleitanir sem hafa hugsanlega komið inn í ráðuneytið. Og ef svo er ekki hvort ráðherra mundi gera það ef formleg erindi þess efnis bærust ráðherra.