141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

rekstur framhaldsskóla.

250. mál
[16:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra og framlag hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur. Ég ætla hins vegar að fá að vera ósammála. Ég tel að framhaldsskólinn okkar geti gert miklu betur og það endurspeglast fyrst og fremst í því að við erum að tala um þriðjungs brottfall nemenda úr kerfinu.

Í samanburði við nágrannaþjóðir okkar er líka mjög lágt hlutfall af vinnuafli okkar með framhaldsskólapróf, 30–40% eru ekki með slíkt próf. Þetta eru tölur sem við eigum ekki að sætta okkur við. Við eigum að horfa til þess hvað við getum gert betur, hvernig við getum bætt úr. Þar held ég að það skipti verulega miklu máli að skoða framhaldsskólana og fyrirkomulagið þar.

Ég hef líka velt því mjög fyrir mér — þá vil ég horfa á leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, setja háskólana aðeins til hliðar — hvort við þurfum ekki líka aðeins að breyta nálgun okkar. Á forsíðu Fréttablaðsins í morgun er talað um það hversu miklu máli skiptir að nálgast nemendur út frá þroska og hæfni en ekki ártali. Við höfum allt of lengi verið föst í kössum og horft á almanaksárið — þessir nemendur eiga að vera í leikskóla, þessir í grunnskóla, þessir í framhaldsskóla. Til að stuðla að góðum árangri þarf að einblína á þroska og hæfni nemenda og tryggja meiri samfellu þarna á milli.

Mikill metnaður hefur verið hjá sveitarfélögunum hvað varðar rekstur þeirra skólastiga sem hafa verið á þeirra vegum. Benda má á að grunnskólanámið hefur verið lengt um allt að tvö ár á undanförnum árum. Ég mundi líka telja það hluta þeirra breytinga sem fyrrum menntamálaráðherra (Forseti hringir.) fór í á lögum um skólana að opna fyrir möguleikana á því að sveitarfélög gætu tekið að sér (Forseti hringir.) rekstur framhaldsskóla í tilraunaskyni. Einnig átti að tryggja betra flæði og samfellu á milli skólastiga. (Forseti hringir.)