141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

rekstur framhaldsskóla.

250. mál
[16:53]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er ekki ósammála hv. þm. Eygló Harðardóttur um að mjög mikilvægt er að vinna gegn brottfalli. En það sem ég sagði hér áðan snýr að því að við erum að innleiða ný lög og nýjar námskrár. Og eitt markmið þeirra, ég held að öllum hv. þingmönnum sé það ljóst, er að sporna gegn brottfalli. Við erum að fara í tilraunaverkefni í þremur framhaldsskólum þar sem við hyggjumst rannsaka brottfallið betur.

Eitt af því sem vantar í skólakerfi okkar og mætti nú ræða meira í þessum sal eru menntarannsóknir. Við stöndum nágrannaþjóðum okkar langt að baki í þeim efnum. Það gerir að verkum að við ræðum málin oft án þess að hafa rannsakað ástæður út í hörgul, t.d. hverjar ástæður brottfallsins eru. OECD nefnir þó fimm líklegar ástæður. Við höfum verið að vinna að því að bæta úr hvað eina þeirra varðar, sem snertir framboð á námi. Á nýjum framhaldsskólalögum og þeim námskrám sem byggja á þeim má sjá að verið er að stefna að því að auka fjölbreytni í námi, efla styttri námsbrautir og breyta framhaldsskólakerfinu, sem að mörgu leyti var byggt utan um allt annan hóp námsmanna en hann þjónar núna, til samræmis við þá nemendur sem þar stunda nám í dag. Fólk talar um að framhaldsskólarnir hafi lítið breyst en ef það kynnir sér málin þá hafa skólarnir verið að taka mjög stórstigum breytingum á undanförnum árum í framboði á námi. Ég held að á næstu missirum eigum við eftir að sjá enn meiri breytingar, sérstaklega hvað varðar starfsnám þar sem mikil stefnumótun með hagsmunaaðilum hefur staðið yfir. Ég vonast nú til þess að þetta eigi eftir að vinna gegn brottfallinu.

Hvað það varðar hvort ríki eða sveitarfélag stendur að rekstrinum þá kann að vera að það hafi ágætar breytingar í för með sér og þá sérstaklega hvað varðar samfelluna sem við erum þó að reyna að tryggja milli þessara tveggja rekstraraðila. (Forseti hringir.) En ég held að það sé líka mikilvægt að við viðurkennum metnað löggjafans í löggjöf og reglugerðum hvað varðar framhaldsskólann (Forseti hringir.) og gefum þeim breytingum ákveðinn tíma til að ganga í gegn.