141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

einelti í skólum.

252. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég skrifaði grein sem birtist í morgun og ætla aðeins að fá að lesa upp úr henni, með leyfi forseta:

„„Mamma, af hverju kemur enginn í afmælið mitt?“ Þessi orð eru greypt í huga kunningja míns frá því hann spurði móður sína að þessu fyrir meira en 30 árum síðan. Hann hafði boðið öllum bekknum í afmælið sitt, mamman eytt laugardeginum í að baka og búið að skipuleggja skemmtanir og leiki. Klukkan þrjú á sunnudegi var hann kominn í sparifötin og beið þess að bekkjarfélagarnir kæmu til að samgleðjast honum á afmælisdaginn. Þegar klukkan var farin að ganga fimm var ljóst að enginn kæmi.

Hughreystandi orð móður hans, um að krakkarnir hlytu nú bara að hafa gleymt þessu, skiptu hann litlu. Hann vissi betur. Þetta var hluti hins daglega lífs í skólanum. Félagsleg einangrun og útilokun. Þetta var birtingarmynd þess eineltis sem hann varð fyrir af hendi skólafélaganna í árganginum. Hann var ekki laminn, enda stærri og sterkari en flestir jafnaldrar hans. Ofbeldið sem hann varð fyrir var ekki líkamlegt. Hann kom ekki heim með marbletti eða glóðaraugu. Aðeins ör á sálinni, sem aldrei mun hverfa.“

Ég beini fyrirspurn til ráðherra um hvað hún hafi gert til að berjast gegn einelti í skólum. Ég er sannfærð um að þetta er málefni sem ráðherra hefur látið sig varða. Það hefur komið fram í skriflegum svörum við fyrirspurn frá mér, um aðgerðir gegn einelti, og í þeim tillögum sem komu fram í greinargerð um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum frá júní 2010. Þar hefur verið talað um að ráðinn hafi verið verkefnisstjóri og að ákveðið hafi verið að vera með eineltisdaginn sem nýlega var haldinn í annað sinn. Ætlunin er að koma á stofn fagráði, menn hafa verið að endurskoða reglugerðir og í einhverjum tilvikum verið að velta fyrir sér lögum.

Ég mundi gjarnan vilja heyra, frá því að ráðherra svaraði mér síðast, hvað hæstv. ráðherra hefur verið að gera til að sporna við þessu vegna þess að einelti er mjög alvarlegt. Það hefur sýnt sig að tíðni sjálfsvígstilrauna og áfengis- og fíkniefnaneyslu er mun hærri hjá þeim hópi sem verður fyrir einelti. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að börn og unglingar sem þurft hafa að upplifa einelti sýna einkenni árum seinna sambærileg við þá sem orðið hafa fyrir „Post-traumatic stress disorder“ eða áfallaröskun. Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að um 20% skólabarna telja sig verða fyrir einelti. Þessi tala virðast vera mjög svipuð í þeim löndum þar sem slíkar rannsóknir hafa verið gerðar.

Ég vil í framhaldi af því spyrja ráðherrann, og vonast til að hún svari mér, hvort hún telur koma til greina að setja lög sem mundu snúa við sönnunarbyrðinni í eineltismálum. Fórnarlambið þyrfti þá ekki að sýna fram á eineltið heldur þyrftu skólar að sýna fram á að þeir hefðu brugðist við einelti á fullnægjandi hátt til að firra sig þar með ábyrgð og skaðabótaskyldu. Vísa ég þá (Forseti hringir.) sérstaklega til löggjafar sem hefur verið sett í Svíþjóð, og nokkur reynsla er komin á, varðandi bæði mismunun og einelti í skólum.