141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

einelti í skólum.

252. mál
[17:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta. Eins og ráðherra sagði erum við flest búin að gera okkur grein fyrir því að einelti er ofbeldi. Það breytir því ekki að við þekkjum, held ég, flest dæmi þess að hafa gengið inn í skóla þar sem við sjáum standa falleg orð á veggjunum um mikilvægi þess að berjast gegn einelti og heyrum síðan dæmi um börn sem hafa orðið fyrir einelti í viðkomandi skóla þar sem ekki hefur verið brugðist við athugasemdum eða raunar hjálparbeiðnum frá þeim.

Nýlegt dæmi og mjög alvarlegt er þegar einelti fór út í líkamlegt ofbeldi í framhaldsskóla. Þar kom enn á ný í ljós hversu vanmáttug við erum þegar við tökum á slíku þar sem þeir sem beittu ofbeldinu gerðu athugasemdir við að það ætti að hafa einhver áhrif á skólagöngu þeirra og virtust þar af leiðandi ekki gera sér grein fyrir hversu alvarlegt það mál var.

Ég velti líka fyrir mér hvort við, þó að við séum að vinna í að koma í veg fyrir að slíkt gerist, gerum okkur nægilega vel grein fyrir áhrifunum á einstaklinginn í framhaldinu. Á fundi velferðarnefndar um geðheilbrigðismál var einmitt rætt sérstaklega að einelti gæti skaðað hæfni fólks til að mynda félagsleg tengsl, að fólk sem hefði orðið fyrir einelti væri líklegra til að kljást síðar við kvíðaraskanir, þunglyndi og erfiðleika, eins og ég nefndi, varðandi áfengis- og fíkniefnaneyslu og jafnvel sjálfsvígstilraunir. Þetta verður að lýðheilsuvandamáli sem við þurfum að takast á við. Það hlýtur að vera markmið okkar að koma í veg fyrir slíkt þannig að hvert og eitt barn (Forseti hringir.) geti haft gaman af skólagöngunni og fengið að njóta sín með félögum sínum.