141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er að taka upp mál sem ég hef fylgt eftir frá því að ég var kosin þingmaður, málefni Farice-sæstrengsins og þeirrar ríkisábyrgðar sem hæstv. þáverandi fjármálaráðherra veitti félaginu eftir bankahrunið. Ég hef verið mjög gagnrýnin á þessa aðgerð og nú kemur í ljós í skýrslu Ríkisendurskoðunar að ríkisstjórn sú sem nú starfar hefur veitt þessu tiltekna fyrirtæki afar ríka ríkisábyrgð og það að einhverjum hluta heimildarlaust. Það er mjög alvarlegt hvernig komið er fyrir fjárveitingavaldinu í fjármálaráðuneytinu vegna þess að við hv. þm. Pétur H. Blöndal, svo einhver nöfn séu nefnd, höfum gagnrýnt mjög þá ríkisvæðingarábyrgð sem hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, stóð fyrir. Nú berst skýrsla eftir skýrslu frá ríkisendurskoðanda þar sem beinlínis er gefið í skyn að ríkisstjórnin fari á svig við lög sem er mjög alvarlegur hlutur að mínu mati.

Á árunum 2002–2011 veitti ríkissjóður Farice-félaginu, sem rekur þennan sæstreng á milli Íslands og Evrópu, alls 4,2 milljarða. Þetta eru jafnframt forverar þess félags. Að sama skapi veitti ríkissjóður, og fjármálaráðuneytið undir stjórn þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar, 7 milljarða kr. ábyrgð vegna lántöku eftir hrunið. Í kjölfarið var svo gefið loforð um ríkisábyrgð sem þáverandi hæstv. fjármálaráðherra taldi þinginu trú um að ekki yrði virkjuð en nú hefur komið á daginn að rekstur þessa félags er mjög slæmur og hefur þurft að ræsa (Forseti hringir.) ríkisábyrgðina út. Á þessu verðum við þingmenn að taka þegar veittar eru opnar heimildir eins og þessi, (Forseti hringir.) jafnvel án laga, því að svo sitja skattgreiðendur uppi með þessar röngu ákvarðanir.