141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Mig langar að vekja athygli á skoðanakönnun sem var gerð í byrjun október og snýr að vilja þjóðarinnar til að ganga í Evrópusambandið. Niðurstöður hennar eru nokkuð athyglisverðar en það ótrúlega við þessa skoðanakönnun er þó að þegar hún birtist sá okkar ágæta Ríkisútvarp, meðal annarra fjölmiðla, ekki ástæðu til að fjalla um hana. Erlendir fjölmiðlar höfðu talsvert meiri áhuga á henni. Ég nefni til að mynda nokkra fjölmiðla á Norðurlöndum, Bloomberg og EU-Observer.

Í þessari skoðanakönnun var spurt hvort Íslendingar væru hlynntir eða andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar kom fram að 57,6% þjóðarinnar eru andsnúin ESB-aðild en einungis 27,3% eru hlynnt ESB-aðild. 15% eru óákveðin. Sé þessi skoðanakönnun skoðuð betur kemur í ljós að þeir sem eru að öllu leyti andsnúnir Evrópusambandsaðild eru álíka margir og þeir sem eru að öllu leyti hlynntir, mjög hlynntir eða frekar hlynntir aðildinni. Þeim fer fækkandi sem eru óákveðnir og þeir eru allir að færast yfir í það að vera andsnúnir Evrópusambandsaðild.

Í þessari skoðanakönnun var líka spurt:

Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú að Ísland dragi til baka umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu?

Því hefur verið haldið fram af forustumönnum ríkisstjórnarinnar að þjóðin vilji klára þetta ferli. Skoðanakönnunin sem gerð var í byrjun október sýndi að 53,7% þjóðarinnar vilja draga til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu en 36,4% eru því andvíg. Þetta sýnir svart á hvítu að meiri hluti þjóðarinnar er andsnúinn þeirri utanríkisstefnu sem rekin er af ríkisstjórninni.

Nú er mikið talað um að við eigum að fylgja vilja þjóðarinnar. Í þessu efni er hann skýr, en vilji ríkisstjórnarinnar er annar.