141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Orðið hafa miklar breytingar á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins á mjög skömmum tíma. Við getum sagt að á undanförnum árum hafi sjávarútvegurinn á margan hátt búið við góðæri þar eð við höfum fengið inn í lögsöguna nýjar tegundir sem hafa sem betur fer búið til miklar tekjur fyrir þjóðarbúið og sjávarútveginn. Við höfum líka búið við góðæri almennt talað á okkar helstu mörkuðum.

Nú er markaðsástandið sjálft hins vegar að breytast mjög hratt. Vaxandi framboð af þorski, t.d. úr Barentshafinu, og miklir efnahagserfiðleikar í sunnanverðri Evrópu valda því að farið er að bóla á birgðasöfnun í einstökum afurðaflokkum. Farið er að bera á greiðslutregðu sem veldur því að kostnaðurinn við birgðasöfnunina lendir á herðum framleiðendanna. Farið er að bera á erfiðleikum við sölu, farið er að bera á verðlækkunum og í ýmsum tilvikum býsna miklum verðlækkunum. Með öðrum orðum, rekstrarumhverfið er að breytast mjög hratt.

Við vitum að sjávarútvegurinn hefur umfram flestar aðrar atvinnugreinar sýnt gríðarlega mikinn sveigjanleika. Ég ætla ekki að vera með neina heimsendaspádóma af þeim ástæðum sem ég rakti áðan. Ég vek hins vegar athygli á því að umhverfið er að breytast gríðarlega hratt og mun þess vegna hafa áhrif bæði fyrir þjóðarbúið í heild og ýmsar byggðir landsins.

Nefnt var á fundi atvinnuveganefndar í morgun um þessi mál að t.d. einstakir afurðaflokkar frá Noregi sem seldir hafa verið til Portúgals hafa lækkað um 50% á einu ári. Það mun hafa gríðarlega mikil áhrif. Það mun hafa sérstaklega mikil áhrif vegna þess að nú er búið að stórhækka veiðigjaldið. Veiðigjaldið er lagt á miðað við afkomu eitt og hálft eða tvö ár aftur í tímann en menn þurfa hins vegar að greiða það gjald með tekjum sem aflað er á þessu ári þegar svona illa horfir um tekjuöflun sjávarútvegsins í mörgum tilvikum.

Þess vegna segi ég að það er mjög mikilvægt að menn endurskoði löggjöfina sem allra fyrst til að afstýra miklum erfiðleikum. Hæstv. atvinnuvegaráðherra sagði í umræðu sem ég hóf (Forseti hringir.) um þessi mál að veiðigjaldanefnd hefði ákveðna frumkvæðisskyldu. Það má vel vera, en hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin hefur auðvitað líka sína frumkvæðisskyldu. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á þeirri lagasetningu sem býr til þau vandamál og verður að bregðast við með einhverjum hætti.