141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

[14:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Þessa dagana berast óhugnanlegar fréttir frá Gaza. Ísraelsmenn láta sprengjum rigna yfir byggðir Palestínumanna og margir óttast að þeir íhugi nú allsherjarinnrás á Gaza þótt þeir hafi frestað því enn um sinn samkvæmt fréttum í morgun. Alþjóðasamfélagið verður að fordæma framferði Ísraela harðlega og Ísland á að ryðja brautina í því efni eins og stundum áður. Rödd Íslands mun heyrast.

Ofbeldisverk Ísraela á palenstínsku þjóðinni eru tilefnislaus og grimmileg. Markmiðið er, eins og ráðherra í ríkisstjórn Ísraels komst að orði, að sprengja Palestínu aftur á miðaldir. Engu er eirt, börn eru strádrepin, börn sem þráðu það eitt að fá að lifa.

Ísland hefur viðurkennt sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Það leggur okkur fyrir vikið þyngri skyldur á herðar að tala máli Palestínumanna og fordæma aðgerðir Ísraela og koma mótmælum okkar á framfæri við ísraelsk stjórnvöld.

Framganga Bandaríkjamanna er einnig mjög gagnrýnisverð. Bandaríkin tala fjálglega um það þegar það hentar að þau séu varðsveit lýðræðis og mannréttinda í heiminum en verja þó nær undantekningarlaust hryðjuverk Ísraels. Í augum þeirra virðist lýðræði og mannréttindi Palestínumanna einskis virði.

Við þurfum enn fremur að styðja baráttu Palestínumanna fyrir aðild að Sameinuðu þjóðunum. Fréttir herma, m.a. frá Danmörku, að Bandaríkjastjórn hafi nú þegar hvatt ýmis samstarfsríki sín og jafnvel beitt þau þrýstingi til að styðja ekki umsóknaraðild Palestínu að Sameinuðu þjóðunum. Eigi slíkar fréttir við rök að styðjast væri það einnig grafalvarlegt og tilefni til mótmæla. Ég vil því spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort íslensk stjórnvöld hafi á einhvern hátt orðið fyrir slíkum þrýstingi. Hafa bandarísk stjórnvöld eða aðrir varað Íslendinga við því að styðja umsókn Palestínumanna sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna mun taka afstöðu til á næstunni?

Þegar Ísland ákvað að viðurkenna fullvalda og sjálfstæða Palestínu var þeim rökum m.a. teflt fram að mikilvægt væri að jafna stöðu ríkjanna tveggja, Palestínu og Ísraels. Yfirburðastaða Ísraels gerði það að verkum að tveggja ríkja lausnin, sem flestir hverjir styðja í orði kveðnu, fjarlægðist ár frá ári. Viðurkenning á sjálfstæði Palestínu væri því mikilvæg til að auka líkur á viðvarandi lausn sem virti rétt beggja.

Framganga Ísraels nú sem svo oft áður sýnir að markmið þarlendra stjórnvalda er að brjóta Palestínumenn niður og friðarhjal þeirra er með öllu innstæðulaust. Árum saman hefur Ísrael komist upp með landrán. Bíðum og sjáum til, stefnan er að heppnast hjá herskáum stjórnvöldum í Ísrael. Hún er að grafa undan raunverulegum möguleikum Palestínumanna til að verða frjálsir. Hún er á góðri leið með að gera að engu tveggja ríkja lausnina.

Á annað hundrað manns liggja nú í valnum eftir fárra daga loftárásir Ísraels á Gaza, um helmingur börn. Íbúðarhús, vegir, vatnsból, skólar, sjúkrahús eru jöfnuð við jörðu. Þá tala menn um rétt Ísraels til að verja sig og jú, einhverjar sprengjur geiguðu víst. Slysaskot í Palestínu. Á það virkilega vera svo að réttur Ísraels til að verja sig veiti þeim heimild til fjöldamorða á Palestínumönnum, eldri borgurum, konum, körlum og börnum?

Frú forseti. Þolinmæðin er á þrotum. Það sýndi m.a. fjölmennur útifundur í nepjunni fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna síðdegis í gær. Ísland á að láta málið til sín taka hvar og hvenær sem er, fordæma framferði Ísraela og gagnrýna Bandaríkjastjórn hispurslaust fyrir linnulausan og að því er virðist skilyrðislausan stuðning í verki við ólögmætar og ofbeldisfullar aðgerðir Ísraela. Við eigum að vera sjálfstæð og einlæg í stuðningi okkar við frelsisbaráttu Palestínu.

Íslendingar voru í fararbroddi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þegar Ísraelsríki var stofnað. Það stóð aldrei neitt annað til en að Palestínumenn fengju einnig sitt ríki. Íslendingar geta ekki og vilja ekki sætta sig við áframhaldandi stríðsátök og við getum ekki unað því að Ísraelsríki, sem Ísland hefur átt talsverð samskipti við og er í stjórnmálasambandi við, haldi uppteknum hætti. Að öðrum kosti verða þau samskipti öll að koma til endurmats. Í því efni hlýtur að koma til skoðunar hvers konar sniðganga og refsiaðgerðir, efnahagslegar, menningarlegar eða pólitískar, sem nýtist frelsisbaráttu Palestínumanna og er ekki neitt útilokað fyrir fram í þeim efnum.

Nú verður að reisa kröfuna um að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hlutist til um að koma á tafarlausu vopnahléi og að Bandaríkin beiti afli sínu til að koma vitinu fyrir Ísraelsstjórn. Jafnframt þarf að virða lýðræðislega kjörna forustu Palestínumanna og hvetja samtök þeirra til að snúa bökum saman og vinna að varanlegum friði. Blóðbaðinu verður að linna. Palestína á lögmætan rétt til að verða frjáls. Ísland hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu og þeirri viðurkenningu fylgir ábyrgð til að tala máli palenstínsku þjóðarinnar. Undir þeirri ábyrgð eigum við að rísa.