141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

[14:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að Ísland viðurkenndi fullveldi Palestínu. Það er sömuleiðis rétt sem hv. þingmaður segir að þeirri viðurkenningu fylgir sú ábyrgð að við þurfum hvarvetna að tala máli Palestínumanna þegar á þá er ráðist. Það er nákvæmlega það sem Íslendingar hafa gert. Ég hef sem utanríkisráðherra hvarvetna, á öllum fundum, tekið upp mál þeirra og talað máli þeirra af fullum þunga. Ég get fullvissað hv. þingmann um að rödd Íslands hefur hiklaust hljómað í þágu þess réttláta málstaðar sem Palestínumenn berjast fyrir.

Ég get einnig tekið undir með hv. þingmanni að í þeirri baráttu ber að skoða allar leiðir sem við getum farið til að koma fram réttlæti í því máli. Ein af þeim leiðum sem hv. þingmaður benti á varðar stjórnmálasamband okkar við Ísrael. Að sjálfsögðu hlýtur það eins og allt annað að vera til skoðunar í þessu máli. Því er rétt að fram komi að á sínum tíma, í júní 2010, samþykkti utanríkismálanefnd ályktun þar sem mér var falið að fara sjálfur til Gaza og Vesturbakkans og skoða aðstæður og í öðru lagi að skoða hvort hægt væri að ná einhvers konar samstöðu um það meðal annarra þjóða að þær mundu beita Ísraela þrýstingi með því að slíta stjórnmálasambandi við ríkið.

Eins og hv. þingmenn vita fór ég til Gaza og Vesturbakkans og sá sjálfur með eigin augum með hvaða hætti landið er rist sundur af himinháum múrum, hvernig Ísraelar koma í veg fyrir það með ofbeldi að Palestínumenn fái notið lágmarksmannréttinda. Ég sá sjálfur að börnin gátu ekki vaxið upp með eðlilegum hætti. Ég sá örbirgðina í Gaza og ég sá það með eigin augum að sjómenn gátu ekki róið til fiskjar á gjöful fiskimið.

Ég ræddi við fjölmarga stjórnmálamenn og kollega mína, utanríkisráðherra, víðs vegar um heiminn, t.d. á Norðurlöndum, en einnig ræddi ég við utanríkisráðherra nágrannaríkja Palestínu, m.a. í Jórdaníu. Ég ræddi einnig við forustumenn Arababandalagsins og Egyptalands á þessum tíma. Ég ræddi málið við Abbas Palestínuforseta á löngum fundi og niðurstaðan var þessi, eins og ég greindi frá á sínum tíma: Enginn þessara taldi rétt að Ísland sliti stjórnmálasambandi við Ísrael, það er rétt að það komi hér fram. Allir, þar á meðal forseti Palestínu, lögðu ríkt á um að við værum í færum til að tala máli þeirra gagnvart Ísrael. Abbas Palestínuforseti sagði: Markmið okkar er ekki að einangra Ísrael heldur að fá aðrar þjóðir til að færa þeim heim sanninn um að þeir verða að semja frið.

Það útilokar eigi að síður ekki við vissar aðstæður að menn mundu endurmeta stjórnmálasamband við Ísrael en ég tel að það væri fráleitt af Íslandi að gera það eitt og sér. Það verður að gera það með einhverjum hætti í samvinnu og samfylgd annarra ríkja. Þá er rétt að greina frá því að á þessum morgni hafði utanríkisráðuneytið í Palestínu samband við mig og tjáði mér meðal annarra orða að þeir teldu rétt að hvað eina sem Íslendingar gripu til gagnvart Ísrael yrði gert í samvinnu við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Það hef ég kappkostað að gera. Ég hef jafnan haft frumkvæði að því í þeim hópi að taka upp málefni Palestínu. Ég hef líka átt viðræður við hinar Norðurlandaþjóðirnar í tilefni þessara viðræðna. Það er rétt að það komi algerlega skýrt fram sem svar við spurningu hv. þingmanns að Ísland, að því er ég best veit, hefur ein Norðurlandaþjóðanna lýst yfir skilyrðislausum stuðningi við tillöguna um að Palestína verði tekin í hóp þeirra ríkja sem sitja á þingi Sameinuðu þjóðanna, að hún fái aukaaðild að þeim samtökum. Það hefur engin önnur Norðurlandaþjóð gert. Það hefur ekkert ríki í Vestur-Evrópu lýst með þeim hætti, með skilyrðislausum stuðningi.

Þegar við létum þá skoðun í ljósi á síðasta ári og töldum og væntum þess að við mundum fá að greiða um það atkvæði á allsherjarþinginu kom í ljós að önnur ríki, stórveldi, beittu þrýstingi og þvingunum til að koma í veg fyrir að sú tillaga kæmist á dagskrá. Þá var það Ísland eitt ríkja Norðurlandaþjóðanna og eitt ríkja í Vestur-Evrópu sem eigi að síður tók skrefið fram og lýsti yfir fullri viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu.