141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

[14:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Það hlýtur að eiga að vera grundvallaratriði í íslenskri utanríkisstefnu að Ísland beiti sér ávallt fyrir friði í heiminum. Þegar við sjáum atburði eins og þá sem nú eiga sér stað á Gaza-svæðinu er mikilvægt að Ísland beiti sér eins og það mögulega getur til að hafa áhrif þar á og stöðva ofbeldið. Þó að Ísland sé að sjálfsögðu ekki valdamikið ríki í alþjóðasamfélaginu getur rödd þess þó haft áhrif og ég var ánægður að heyra hæstv. utanríkisráðherra lýsa þeirri stefnu að vinna ætti að þessum málum í samráði við Norðurlandaþjóðirnar. Það er best til þess fallið að auka áhrif Íslands hvað þessi mál varðar, að við beitum okkur fyrst meðal Norðurlandanna fyrir því að þau tali einni röddu, einni og skýrri röddu, vegna þess að það er fylgst með því hver afstaða Norðurlandanna er í málefnum Ísraels og Palestínu enda hafa þau um langt skeið, áratugaskeið, komið þar að málum á ýmsan hátt og iðulega unnið að friðsamlegum lausnum á því ástandi sem þar er.

Ég hvet því hæstv. ráðherra til að vinna áfram með Norðurlöndunum að því að þau tali skýrt og jafnframt að þau beiti sér fyrir því að árásir eins og þarna hafa átt sér stað hafi einhverjar afleiðingar, menn geti ekki leyft sér aftur og aftur að ráðast í loftárásir, flugskeytaárásir og jafnvel að eira engu og varpa sprengjum yfir óbreytta borgara jafnt sem stríðsmenn án þess að því fylgi einhverjar afleiðingar, hvort heldur sem eru efnahagslegar eða pólitískar.

Það væri því fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra fara yfir hér á eftir með hvaða hætti hann muni beita sér á næstu missirum og fyrir hvaða afstöðu hann muni berjast á vettvangi Norðurlandasamvinnunnar.