141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

[14:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu sem fer því miður ekki fram í fyrsta sinn. Ég vil segja að ég var mjög stolt af því þegar við viðurkenndum sjálfstæði og fullveldi Palestínu í þessum sal en það leggur okkur líka skyldur á herðar. Ég styð hæstv. utanríkisráðherra einarðlega í því að styðja við umsókn Palestínu um aukaaðild að Sameinuðu þjóðunum og það er áhugavert að heyra að við erum sú þjóð sem göngum hvað lengst í því. Ég tel líka að við þurfum að reka erindi Palestínsku þjóðarinnar sem víðast og skoða allar færar leiðir því að þó að það sé rétt sem sagt er að sjaldan valdi einn þá tveir deila, er það svo að þegar gerðar eru árásir af palestínskum vígamönnum yfir á Ísrael lít ég ekki svo á að Ísraelsmenn séu að verja sig þegar þeir sprengja markvisst upp innviði Palestínu, þegar markvisst eru sprengd upp stjórnsýsla og íbúðarhús. Þegar börn eru drepin er það ekki vörn.

Þetta er gríðarlega alvarlegt ástand og því miður, eins og hv. málshefjandi benti á, sjáum við ekki fyrir endann á því þannig að ég tel rétt að Íslendingar haldi áfram að eiga frumkvæði í þessum málum og að það sé skylda okkar að skoða hvaða leiðir eru færar. Menn hafa hér einkum rætt um stjórnmálasamband, ég tel rétt að við horfum á leiðir á borð við viðskiptaþvinganir, á borð við menningarleg samskipti, á sviði menningar og íþrótta. Rifjum upp að þó að margir hafi talið að viðskiptaþvinganir mundu ekki skila árangri gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku og að þær mundu jafnvel bitna helst á hinum þeldökka meiri hluta, skiluðu þær samt árangri á endanum. Ég held að þó að rétt sé að við reynum að beita okkur í hópi annarra þjóða í þessum málum, því að þetta er auðvitað mál sem er fyrst og fremst leyst með þrýstingi þjóða saman, verðum við að gera eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði, að skoða allar leiðir því að við getum ekki látið þetta ástand viðgangast.