141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

[14:35]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst gott að við séum að ræða þetta því ég veit ekki hvort það er mikið annað sem við getum gert. Það er ekki oft sem mér finnst ég vera vanmáttug, lítil og í raun og veru geta gert lítið. Við horfum sorgmædd á átök, blóðbað, þar sem tvær þjóðir berjast. Önnur er sterk og hervædd, studd af einni valdamestu þjóð í heimi, en hin er fátæk, hrakin og landlaus. Við getum samt ekki staðið hjá og verðum að bregðast við með einhverjum hætti. Hvað getum við gert til þess að stöðva ofbeldið og blóðbaðið? Ég veit það ekki en held að við þurfum að reyna að gera allt sem við getum til þess að stuðla að friði.