141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mikill og vandaður undirbúningur hefur verið að frumvarpi því sem ég mæli nú fyrir fyrir hönd meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Við kusum stjórnlaganefnd, héldum þúsund manna þjóðfund og skipuðum 25 manna stjórnlagaráð sem hafði verið valið úr hópi meira en 500 manna sem buðu sig fram til starfans. Fjallað hefur verið um tillögurnar á mörgum fundum lærðra og leikra, fjallað hefur verið um málið í þingsal sem og í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Fjórir sérfræðingar hafa rýnt tillögur stjórnlagaráðsins með hliðsjón af í fyrsta lagi mannréttindasáttmálum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að fara eftir, í öðru lagi innra samræmi og mögulegum mótsögnum í frumvarpinu, í þriðja lagi réttarvernd sem fælist í frumvarpinu miðað við gildandi stjórnarskrá og greinargerð með tillögum og í fjórða lagi málsóknarmöguleikum gegn ríkinu. Sérfræðingarnir fjórir skrifuðu einnig greinargerð með frumvarpinu sem hér liggur fyrir og í þeirri vinnu studdust þeir við greinargerð sem fylgdi tillögum stjórnlagaráðsins.

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi stjórnarskrá. Í því eru 114 greinar en í gildandi stjórnarskrá eru þær 81. Auk aðfaraorða skiptist frumvarpið í níu kafla, um undirstöður, um mannréttindi og náttúru, Alþingi, forseta Íslands, ráðherra og ríkisstjórn, dómsvald, sveitarfélög, utanríkismál og lokaákvæði um stjórnarskrárbreytingar og gildistöku. Í skýringum stjórnlagaráðs kemur fram að lögð hafi verið áhersla á skýra framsetningu, bæði málfar og uppbyggingu. Í samræmi við það sem að framan er rakið hefur sérfræðingahópur sem starfaði á vegum skrifstofu Alþingis gert nokkrar breytingar á frumvarpinu og er það nú lagt fram í þeirri mynd sem hópurinn lagði til.

Virðulegi forseti. Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um þær grundvallarreglur sem íslenskt stjórnskipulag byggist á. Þingræðisreglan hefur verið meðal megineinkenna íslenskrar stjórnskipunar og í frumvarpinu er reglan fest í sessi. Í stað þess að forseti sé sagður fara með löggjafar- og framkvæmdarvald gerir frumvarpið ráð fyrir að hann fari einungis með framkvæmdarvald. Í sérstöku ákvæði er gerð grein fyrir yfirráðasvæði Íslands. Þá er reglum stjórnarskrárinnar um ríkisborgararétt breytt. Loks er sett inn sérstakt ákvæði þar sem annars vegar er kveðið á um skyldur stjórnvalda til að tryggja að allir fái notið þeirra réttinda og þess frelsis sem felst í frumvarpinu og að öllum beri að virða stjórnarskrána í hvívetna, sem og þau lög, skyldur og réttindi sem af henni leiða.

Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um mannréttindi og náttúru. Í skýringum stjórnlagaráðs kemur fram að ákvæði um mannréttindi hafi verið endurskoðuð og færð framar samanborið við gildandi stjórnarskrá. Leitast hafi verið við að tryggja betur rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum og ákvæði færð til nútímahorfs.

Í frumvarpinu er nýtt almennt ákvæði um takmörkun mannréttinda í stað sértækra skerðingarheimilda í hinum ýmsu mannréttindaákvæðum. Það er breyting frá tillögum stjórnlagaráðsins og einnig breyting frá gildandi stjórnarskrá. Ákvæðið heimilar ákveðnar takmarkanir mannréttinda, en setur þeim skýr mörk. Í mannréttindakaflanum er einnig eftir atvikum að finna sértæk takmörkunarákvæði sem bæta þá efnislega við inntak almenna skerðingarákvæðisins með strangari skilyrðum fyrir skerðingu réttinda eða nánari útfærslur á því með hvaða hætti skerðingar verða heimilaðar. Með þessu er mætt kröfum mannréttindasáttmála Evrópu en jafnframt verður talið að þetta fyrirkomulag nái betur yfir hina raunverulegu réttarstöðu hér á landi en orðalag gildandi stjórnarskrár gefur til kynna.

Jafnræðisreglan er gerð ítarlegri en í gildandi stjórnarskrá. Í nýjum ákvæðum er sérstaklega kveðið á um að allir eigi meðfæddan rétt til lífs og að öllum skuli tryggður réttur til að lifa með reisn. Í tillögu ráðsins er kveðið á um að yfirvöldum beri ætíð að vernda borgarana gegn mannréttindabrotum, hvort heldur sem brotin eru af völdum handhafa ríkisvalds eða annarra.

Eins og í gildandi stjórnarskrá er kveðið á um að öllum börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst en bætt við ákvæði um að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar séu ákvarðanir í málum sem það varðar.

Í nýju ákvæði er kveðið á um að allir skuli hafa rétt til aðgangs að opinberum gögnum og að meðferð opinbers valds og hagsmuna skuli vera gagnsæ og gögnum haldið til haga. Skrá yfir mál og opinber gögn, uppruna þeirra og innihald, á að vera öllum aðgengileg eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Þá er kveðið á um vernd svokallaðra afhjúpenda innan stjórnsýslunnar. Er ákvæðum frumvarpsins um þessi efni ætlað að stuðla að virkara aðhaldi almennings gagnvart valdhöfum og hvetja fjölmiðla til að sinna mikilvægu hlutverki sínu í lýðræðislegu samfélagi. Aðgangur almennings að upplýsingum og frjálsum fjölmiðlum er snar þáttur mannréttinda og mikilvægur hluti lýðræðis.

Réttur fjölmiðla er nýmæli í frumvarpinu og tjáningarfrelsi er veitt aukin vernd. Mælt er fyrir um vernd trúnaðarsambands blaðamanna og heimildarmanna og á stjórnvöld lögð sú skylda að tryggja fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlun, gagnsæi eignarhalds og aðstæður að öðru leyti sem stuðla að frjálsri og upplýstri þjóðfélagsumræðu. Í sérstöku ákvæði segir að tryggja skuli með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.

Í kjölfar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var 20. október 2012 þótti aftur á móti vera tilefni til að fjalla áfram um stöðu þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá. Er því í frumvarpi þessu ákvæði þar sem kveðið er á um stöðu þjóðkirkjunnar.

Í frumvarpinu er einnig að finna sérstök ákvæði sem fjalla um félagsleg réttindi og rétt til heilbrigðisþjónustu og menntunar. Í ákvæðunum er ýmist fjallað um réttindi sem ekki er kveðið á um í gildandi stjórnarskrá eða það gert með ítarlegri hætti en nú er. Þá er í viðbótarákvæði við atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar kveðið á um að með lögum skuli kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða og að öllum skuli tryggður réttur til sanngjarnra launa.

Í frumvarpinu er sérstakt ákvæði þar sem fjallað er um rétt útlendinga sem koma til landsins og dveljast hér. Um rétt þeirra skal fjallað í lögum svo og fyrir hvaða sakir er hægt að vísa þeim úr landi. Þá er einnig kveðið á um að með lögum skuli kveða á um rétt flóttamanna og hælisleitenda, sem geta átt á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þeim er tryggður réttur til réttlátrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma.

Ákvæði frumvarpsins um skilyrði frelsissviptingar og réttindi þeirra sem sviptir hafa verið frelsi sínu er lítillega breytt frá gildandi stjórnarskrá á þann hátt að þau undantekningartilvik sem réttlætt geta frelsisskerðingar eru nú talin upp með tæmandi hætti. Nýmæli er að kveðið er á um rétt manna til að sæta ekki tvöfaldri saksókn eða refsingu. Einnig er nýtt ákvæði þar sem lagt er bann við að herskylda verði leidd í lög. Þá er lagt til að í stjórnarskrá verði ákvæði um vernd menningarverðmæta.

Meðal fleiri nýmæla eru ákvæði um náttúru Íslands, umhverfi og auðlindir. Auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru samkvæmt þeim sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Þá er lagt til nýtt ákvæði þess efnis að stjórnvöldum beri að upplýsa almenning um ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á.

Virðulegi forseti. Þetta síðastnefnda eru gífurlegar breytingar.

Í stjórnarskrá á að koma fram að með lögum skuli kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og vernd dýrategunda í útrýmingarhættu.

Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um Alþingi. Í skýringum stjórnlagaráðs er rakið að lögð sé áhersla á að dreifa valdi og auka aðgreiningu löggjafar- og framkvæmdarvalds. Gerðar eru margar breytingar sem munu hafa í för með sér bætt löggjafarstarf Alþingis. Eftirlits- og fjárstjórnarhlutverk þingsins er eflt til muna. Leitast hefur verið við að efla samráð á milli meiri og minni hluta á þingi, m.a. með því að gera kröfu um samþykki aukins meiri hluta þingmanna, svo sem við kosningu forseta Alþingis. Meðal nýmæla má nefna að sérstaklega er kveðið á um í upphafi kaflans að hlutverk Alþingis sé að fara með löggjafar- og fjárstjórnarvald ríkisins og að það hafi eftirlit með framkvæmdarvaldinu.

Kosningakerfið er tekið til heildarendurskoðunar. Tekið er fram í frumvarpinu að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu skuli vega jafnt. Kveðið er á um að kjósandi geti með persónukjöri valið frambjóðendur þvert á lista en heimilt sé að mæla fyrir um í lögum að valið sé einskorðað við kjördæmislista eða landslista stjórnmálaflokka. Kjördæmi eiga að vera eitt til átta. Bann er lagt við því að setja þröskuld fyrir úthlutun þingsæta en hann er 5% samkvæmt gildandi lögum. Fram kemur í skýringum stjórnlagaráðs að markmið breytinganna sé að efla lýðræði með því að auka bein áhrif kjósenda á val alþingismanna og að jafna vægi atkvæða. Þá skuli þess gætt að raddir sem flestra landsvæða heyrist á Alþingi og stuðlað að því að hlutfall karla og kvenna verði sem jafnast á þingi.

Ákvæði gildandi stjórnarskrár um starfstíma Alþingis er einfaldað og því breytt. Í frumvarpinu er það nýmæli að forseta ber að stefna saman Alþingi berist um það krafa frá fjórðungi þingmanna, en forseta er það einungis skylt samkvæmt gildandi stjórnarskrá sé þess krafist af meiri hluta þingmanna.

Sérstök hæfisregla er í frumvarpinu um störf þingmanna en samkvæmt henni er alþingismanni óheimilt að taka þátt í meðferð lagafrumvarps eða tillögu til þingsályktunar sem varðar sérstaka og verulega hagsmuni hans eða honum nákominna. Þá skal í lögum kveðið á um skyldu alþingismanna til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína. Samkvæmt frumvarpinu skal í lögum kveða á um starfsemi stjórnmálasamtaka, svo og um fjármál frambjóðenda, en upplýsingar um framlög yfir ákveðinni lágmarksupphæð skulu birtar samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum.

Samkvæmt frumvarpinu verða nokkrar breytingar á stöðu forseta Alþingis. Mun forseti þingsins verða kosinn af 2/3 hlutum þingmanna í stað meiri hluta samkvæmt gildandi stjórnarskrá. Sá sem er kjörinn sem forseti Alþingis lætur af almennum þingstörfum og hefur upp frá því ekki atkvæðisrétt á þinginu. Þá er gert ráð fyrir að forseti Alþingis verði eini staðgengill forseta Íslands.

Ólíkt gildandi stjórnarskrá er í frumvarpinu kveðið á um tilvist fastanefnda Alþingis. Heimild Alþingis til að halda þingfund fyrir luktum dyrum er afnumin. Einungis alþingismenn og ráðherrar munu samkvæmt frumvarpinu hafa heimild til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana, en ráðherrar munu þó einungis hafa heimild hafi ríkisstjórn áður veitt samþykki. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimilt verði að samþykkja lagafrumvarp eftir minnst tvær umræður á Alþingi sem er breyting frá gildandi stjórnarskrá sem kveður á um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en eftir þrjár umræður. Þá er í frumvarpinu sérstakt ákvæði um meðferð þingsályktunartillagna og annarra þingmála.

Í frumvarpinu er ítarlegar fjallað um staðfestingu forseta Íslands á lögum en í gildandi stjórnarskrá. Forsetinn mun samkvæmt frumvarpinu, líkt og nú, geta synjað frumvarpi staðfestingar en skal það þá borið undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Forseta er settur vikufrestur til að taka ákvörðun um beitingu málskotsréttarins og geri hann það verður þjóðaratkvæðagreiðslan um frumvarpið að fara fram innan þriggja mánaða felli Alþingi ekki sjálft lögin úr gildi innan fimm daga frá synjun forseta.

Í frumvarpinu er hvorki gert ráð fyrir að forseti né ráðherra hafi heimild til að gefa út bráðabirgðalög.

Samkvæmt frumvarpinu mun Alþingi kjósa fimm menn til fimm ára til að sitja í Lögréttu en fjórðungur þingmanna mun geta óskað eftir áliti Lögréttu um hvort lagafrumvarp samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins mun kanna hvers kyns athafnir og ákvarðanir ráðherra eða stjórnsýslu þeirra eftir því sem hún telur efni til eða sé þess krafist af fjórðungi þingmanna. Loks mun Alþingi, sem fyrr, geta skipað nefndir til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða.

Ýmis nýmæli eru í frumvarpinu sem tryggja eiga rétt almennings til lýðræðislegrar þátttöku í ákvörðunum. Samkvæmt frumvarpinu geta tíu af hundraði kjósenda krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt og tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi. Í skýringum stjórnlagaráðs kemur fram að með þessum breytingum muni Ísland vera meðal þeirra þjóða sem tryggi best rétt almennings til þátttöku í opinberum ákvörðunum. Beint lýðræði sé þannig aukið til muna.

Heimild þá sem er í gildandi stjórnarskrá um fjáraukalög er ekki að finna í frumvarpinu. Þess í stað er kveðið á um að fjármálaráðherra geti innt af hendi greiðslu án heimildar í fjárlögum í tilteknum tilvikum veiti fjárlaganefnd samþykki sitt. Þá er í frumvarpinu sérstaklega kveðið á um heimild fjárlaganefndar til að krefja alla þá sem fá framlög úr ríkissjóði um upplýsingar sem tengjast ráðstöfun þess fjár. Það nýmæli er í frumvarpinu að stjórnvöldum er óheimilt að ábyrgjast fjárhagslegar skuldbindingar einkaaðila nema vegna almannahagsmuna.

Í frumvarpinu er lagt til að heimild forsætisráðherra til að rjúfa þing með atbeina forseta verði afnumin. Þess í stað er gert ráð fyrir að forseti Íslands rjúfi Alþingi að ályktun þess eða ef tíu vikur hafa liðið frá því að embætti forsætisráðherra varð laust án þess að nýr forsætisráðherra hafi verið kjörinn. Sérstök ákvæði er að finna í frumvarpinu um núverandi stofnanir þingsins, þ.e. Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis, en þeirra er ekki getið í núverandi stjórnarskrá.

Í IV. kafla frumvarpsins er fjallað um embætti forseta Íslands. Samkvæmt frumvarpinu skal forseti Íslands ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil. Í frumvarpinu er kveðið á um að kosið verði til embættis forseta Íslands með nokkuð öðru sniði en samkvæmt gildandi stjórnarskrá. Munu kjósendur raða frambjóðendum í forgangsröð og mun sá sem best uppfyllir forgangsröðun kjósenda verða rétt kjörinn forseti. Þá er kveðið á annan hátt um staðgöngu forseta og samkvæmt frumvarpinu fer forseti Alþingis með forsetavald geti forseti Íslands ekki gegnt störfum um sinn.

Töluverðar breytingar eru lagðar til á valdheimildum forseta. Miða þær að því að fækka tilvikum þar sem atbeini forseta er eingöngu formlegs eðlis. Valdheimildir forseta munu almennt ekki vera að tillögu ráðherra eftirleiðis. Atbeini forseta að framlagningu stjórnarfrumvarpa, útgáfu stjórnvaldsfyrirmæla og gerð þjóðréttarsamninga er alveg felldur niður samkvæmt frumvarpinu. Forseti mun áfram stefna Alþingi saman að loknum þingkosningum og setja það ár hvert en samkvæmt frumvarpinu án atbeina ráðherra. Þá breytist þingrofsheimildin þannig að forseti rýfur ekki lengur þing að tillögu forsætisráðherra heldur meiri hluta Alþingis. Forseti mun áfram staðfesta nýsamþykkt lagafrumvörp en samkvæmt tillögu frá forseta Alþingis en ekki frá ráðherra. Þá er lagt til eins og áður segir að ákvæði um málskotsheimild forseta vegna nýsamþykktra lagafrumvarpa verði ítarlegra en fyrr. Þá er hlutverki forseta við stjórnarmyndanir lýst mun rækilegar en engin ákvæði eru um það í gildandi stjórnarskrá. Forseti mun skipa forsætisráðherra eins og nú er en ekki samkvæmt tillögu hans sjálfs eða forsætisráðherraefnis heldur í kjölfar kosningar á Alþingi. Áfram mun forseti veita forsætisráðherra lausn en ekki á grundvelli tillögu hans sjálfs. Þá fellur brott atbeini forseta við skipun eða lausn annarra ráðherra. Í stað formlegs atbeina forseta að skipan í mikilvæg embætti kemur heimild til að vísa skipun dómara og ríkissaksóknara til Alþingis og skipa formann hæfnisnefndar sem leggur mat á umsækjendur um önnur mikilvæg embætti. Þá mun forseti náða menn og veita almenna uppgjöf saka en nú samkvæmt tillögu ráðherra.

Samkvæmt frumvarpinu ber forseti ábyrgð á stjórnarathöfnum sínum og skal kveðið á um refsiábyrgð hans í lögum. Ekki er gert ráð fyrir að forseti sitji ásamt ráðherrum í ríkisráði eins og kveðið er á um í gildandi stjórnarskrá. Er ríkisráð því lagt niður sem stofnun í íslenskri stjórnskipun.

Í V. kafla frumvarpsins er fjallað um ráðherra og ríkisstjórn og eru ákvæði kaflans ítarlegri en ákvæði gildandi stjórnarskrár. Samkvæmt frumvarpinu kýs Alþingi sér forsætisráðherra í kjölfar þingkosninga og með því er tekið upp svokallað jákvætt þingræði. Komi fram vantrauststillaga á forsætisráðherra þarf henni að fylgja tillaga um eftirmann hans. Í þessu felst svokallað jákvætt eða uppbyggjandi vantraust. Forsætisráðherra ákveður skipan ráðuneyta og tölu ráðherra og skiptir störfum með þeim en ráðherrar skulu ekki vera fleiri en tíu. Í frumvarpinu er að finna ákvæði þar sem fjallað er um staðgöngu forsætisráðherra og annarra ráðherra. Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og varamaður tekur þingsæti hans. Tekið er fram að ráðherrar séu æðstu handhafar framkvæmdarvalds. Nýmæli er í frumvarpinu um að enginn geti gegnt sama ráðherraembætti samtals lengur en í átta ár og er það til komið af sömu ástæðu og sambærilegt ákvæði varðandi forseta Íslands.

Kveðið er á um að ríkisstjórn taki sameiginlega ákvörðun í mikilvægum og stefnumarkandi málum. Í þessu felst að ríkisstjórn verður fjölskipað stjórnvald við tilteknar aðstæður. Mælt er fyrir um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi, þingnefndum og þingmönnum.

Í frumvarpinu er sérstakt ákvæði um störf starfsstjórnar en samkvæmt því eru völd ráðherra í slíkum stjórnum takmörkuð við ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til rækslu starfa ráðherra. Þá er að finna nýmæli í frumvarpinu þess efnis að árlega skuli ríkisstjórn leggja skýrslu fyrir Alþingi um störf sín og framkvæmd ályktana þingsins. Jafnframt geti ráðherra gert grein fyrir málefni sem undir hann heyrir með skýrslu til Alþingis.

Fyrirkomulagi ráðherraábyrgðar er breytt frá því sem nú er. Samkvæmt frumvarpinu mun stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis geta ákveðið, að undangenginni könnun, hvort hefja skuli rannsókn á meintum embættisbrotum ráðherra. Nefndin skal þá skipa saksóknara sem annast rannsóknina og ákveður hvort gefa skuli út ákæru á hendur ráðherra. Verði gefin út ákæra á hendur ráðherra sækir saksóknarinn málið fyrir dómi. Ákvæði um landsdóm yrðu sem sagt felld út.

Í VI. kafla frumvarpsins er fjallað um dómstóla. Ákvæði um dómstóla hafa verið endurskoðuð frá gildandi stjórnarskrá. Í sérstöku ákvæði er tekið fram að sjálfstæði dómstóla skuli tryggt með lögum. Þá er ákvæði um lögsögu um dómstóla ítarlegra en í gildandi stjórnarskrá. Tekið er fram að dómstólar skeri endanlega úr um réttindi og skyldur að einkarétti, svo og sök um refsiverða háttsemi, og ákveði viðurlög við henni. Þá er kveðið á um að dómstólar skeri úr um stjórnskipulegt gildi laga að því marki sem á það reynir í dómsmáli. Tekið er fram að Hæstiréttur Íslands sé æðsti dómstóll ríkisins og að hann hafi vald til að leysa endanlega úr öllum málum sem lögð séu fyrir dómstóla. Þó sé heimilt að ákveða með lögum að sérstakur dómstóll leysi endanlega úr ágreiningi um kjarasamninga og lögmæti vinnustöðvana. Afnumin er heimild til að veita hæstaréttardómurum sem orðnir eru fullra 65 ára gamlir lausn frá embætti gegn því að þeir missi ekki neins af launum sínum. Í frumvarpinu er nýtt ákvæði um skipan ákæruvalds og stöðu ríkissaksóknara.

Í VII. kafla frumvarpsins er fjallað um sveitarfélög. Þar er nýmæli að tekið er fram að sveitarfélög skuli hafa nægilega burði og tekjur til að sinna lögbundnum verkefnum. Áhersla er lögð á aukna sjálfstjórn sveitarfélaga og kveðið á um svokallaða nálægðarreglu. Í henni felst að þeir þættir opinberrar þjónustu sem þykir best fyrir komið í héraði skuli vera á hendi sveitarfélaga eða samtaka í umboði þeirra. Loks skal haft samráð við sveitarstjórnir og samtök þeirra við undirbúning lagasetningar sem varðar málefni sveitarfélaga.

Í VIII. kafla er fjallað um utanríkismál. Þar er kveðið á um meðferð utanríkismála með skýrari hætti en áður. Tekið er fram að ráðherrum sé skylt að veita utanríkismálanefnd Alþingis upplýsingar um utanríkis- og varnarmál. Ráðherra skal hafa samráð við nefndina áður en ákvörðun er tekin um mikilvæg utanríkismál. Þá verður ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds, aðrar en þær sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti, háð samþykki Alþingis. Frumvarpið felur í sér heimild til framsals ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu, en þó ávallt með afturkræfum hætti. Samþykki Alþingi fullgildingu slíks samnings skal ákvörðunin borin undir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, til samþykktar eða synjunar, enda sé framsal verulegt.

Þá er Alþingi heimilað að lögfesta alþjóðlega mannréttindasáttmála og umhverfissamninga og ganga þeir þá framar almennum lögum.

Í IX. kafla eru ákvæði um stjórnarskrárbreytingar og gildistöku frumvarpsins sem nýrra stjórnarskipunarlaga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að annað fyrirkomulag verði framvegis á stjórnarskrárbreytingum. Allar breytingar á stjórnarskránni skulu hér eftir bornar undir atkvæði allra kosningarbærra manna. Samþykki Alþingi breytingar á II. kafla um mannréttindi og náttúru skal rjúfa þing og boða til almennra kosninga. Þannig er lagt til að það verði erfiðara að breyta mannréttindaákvæðunum en öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Samþykki Alþingi frumvarpið óbreytt skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu. Verði það samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni skal forseti staðfesta það og telst frumvarpið þá gild stjórnarskipunarlög.

Virðulegi forseti. Ég vil nefna tvennt sem ég tel að við þurfum að athuga sérstaklega. Það þýðir ekki að ekki þurfi að athuga margt annað en ég vil nefna þetta tvennt, í fyrsta lagi hvað varðar framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana. Á grundvelli EES-samningsins hafa komið upp tilvik þar sem sérfræðingar telja að fullveldisframsal rúmist ekki innan núgildandi stjórnarskrár og ekki innan þeirra tillagna sem við höfum til umfjöllunar. Ég tel að við þurfum að hafa stjórnarskrá sem gerir okkur kleift að vera fullir þátttakendur í EES-samstarfinu án þess að efna til þjóðaratkvæðagreiðslna með vissu, og stuttu, millibili. Ég undirstrika að ég er einungis að tala um EES-samninginn, auðvitað mundum við aldrei ganga í Evrópusambandið án þess að fullveldisframsalið sem í því felst yrði borið undir þjóðaratkvæði.

Hitt atriðið sem ég vil nefna er hvort og þá hvernig þjóðin geti komið að samþykkt stjórnarskrárinnar og haft endanlegt ákvörðunarvald um hvort stjórnarskráin öðlast gildi. Í nefndaráliti allsherjarnefndar um lög um stjórnlagaþing segir, með leyfi forseta, að það komi „til greina að í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga verði ákvæði sem feli í sér fyrirvara um að tilgreindar stjórnarskrárbreytingar öðlist ekki gildi nema þær séu samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ferill málsins yrði þá með þeim hætti að eftir að stjórnlagaþing hefur samþykkt frumvarp til stjórnarskipunarlaga gengur það til Alþingis til meðferðar. Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarpið er þing rofið og efnt til alþingiskosninga í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þegar og ef nýtt þing staðfestir stjórnarskrárbreytingarnar eru þær bornar undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Og svo síðar:

„Þjóðaratkvæðagreiðslan verður með öðrum orðum bindandi.“

Virðulegi forseti. Ég legg til að eftir þessa umræðu verði frumvarpinu vísað aftur til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við höfum áhuga á að sem flestir þingmenn, helst allir, komi að umfjöllun um málið og mun varaformaður nefndarinnar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, útlista það nánar. Við höfum einnig verið í sambandi við margumtalaða Feneyjanefnd sem er nefnd á vegum Evrópuráðsins skipuð sérfræðingum í stjórnskipunarrétti sem hefur gefið út álit á stjórnarskrám og nefni ég stjórnarskrár Finnlands og Ungverjalands. Það álit á að geta legið fyrir í janúar, í millitíðinni er okkur ekkert að vanbúnaði að fara í djúpa efnislega vinnu í nefndum þingsins því að auðvitað verður stjórnarskráin okkar heimagerð þótt við leitum álits á henni hjá erlendum aðilum.