141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:18]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka framsögumanni fyrir ræðu hennar og skýringar sem þó voru ekki mikið meira en upptalning á því sem er í frumvarpinu enda takmarkaður tími til að fara djúpt í efnið á jafnskömmum tíma og raun ber vitni.

Mér finnst miklu skipta nú þegar málið er komið inn á þingið og lagt fram að það liggi fyrir á hvaða forsendum það kemur hingað, til efnislegrar meðferðar eins og sagt er. Á hvaða forsendum er þetta mál lagt fram? Er það á þeirri forsendu að hér sé komin tillaga sprottin frá þjóðinni sem þingið hefur einhvers konar umsagnarrétt um? Eða eru hendur þingsins óbundnar að mati formanns nefndarinnar sem fjallar um málið? Að hvaða marki koma breytingar á málinu til greina í huga formanns nefndarinnar eftir því sem tilefni gefst til á þinginu í kjölfar þess að málið fer út til umsagnar?

Hvert fer málið til umsagnar? Kemur til greina að fá heildstætt mat á einstökum köflum, (Forseti hringir.) t.d. á kosningakaflanum þar sem gerð er grundvallarbreyting á kosningakerfinu?