141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Hér er komið fram frumvarp sem hefur í raun verið á dagskrá ríkisstjórnarinnar frá því fyrir kosningarnar 2009. Það hefur haft langan aðdraganda, nokkur ár, og fyrir rúmu ári skilaði stjórnlagaráðið af sér tillögum sem eru grunnur þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar.

Mér finnst skipta mjög miklu við þessa 1. umr. að menn tali hreint út um það á hvaða forsendum málið kemur inn í þingið. Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með umræðum um stjórnarskrármálið undanfarnar vikur, mánuði eða jafnvel ár að í huga margra þingmanna er hér komið mál sem sótt er beint til þjóðarinnar og eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna hafa þeir sömu aðilar talað um afar þröngt umboð þingsins til að gera á málinu efnislegar breytingar.

Ég skipa mér ekki í þennan hóp. Í mínum huga er stjórnlagaþingið Alþingi. Samkvæmt stjórnarskránni fer Alþingi með stjórnarskrárvaldið þó að stjórnarskráin komi á endanum frá þjóðinni með því að við erum öll sammála um að breytingar á stjórnarskránni skuli vera í góðri sátt við þjóðina. Þess vegna vil ég að það komi skýrt fram strax við 1. umr. þessa máls að málið kemur hingað inn í mínum huga til efnislegrar meðferðar og þar með til efnislegra breytinga eftir því sem þörf er á.

Ég vil líka lýsa því yfir sem minni skoðun við 1. umr. að ég tel óraunhæft að ljúka þessu máli fyrir kosningar. Það er vegna þess að tíminn á þessu kjörtímabili hefur verið nýttur alveg óskaplega óskynsamlega. Til dæmis er núna bráðum liðið eitt og hálft ár frá því að stjórnlagaráð skilaði af sér tillögum sínum og enn hefur málið ekki verið sent til alvöruumsagnar um efnislega þætti. Þess vegna gerir lögfræðinganefndin sem nýlega skilaði af sér að tillögu sinni að slíkt heildstætt mat verði framkvæmt. Það er bent á þann möguleika að senda málið til Feneyjanefndarinnar til umsagnar um þætti sem varða samræmingu og góð fordæmi annars staðar að og eflaust er ekki vanþörf á því að fá slíkt innlegg frá Feneyjanefndinni. Mér finnst ágætt í sjálfu sér að nefndin hafi nú þegar tekið ákvörðun um að senda málið þangað en ég tek eftir því að það var gert án þess að um það væri rætt í nefndinni. Það var engin formleg umfjöllun um það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, t.d. á hvaða forsendum málið færi þangað til umsagnar og um hvað væri verið að biðja um álit á. Mér finnst það athyglisvert. Það er eins og það sé sífellt viðleitni að hafa þrengra umboð allra aðila sem fá málið til umsagnar.

En látum það liggja á milli hluta. Að undanförnu hafa farið fram nokkur málþing um stjórnarskrármálið. Ég hef setið málþing bæði í Háskóla Íslands og í Háskólanum í Reykjavík. Á málþinginu í Háskóla Íslands sem fór fram föstudaginn fyrir tæpum hálfum mánuði kom fram margvísleg gagnrýni á þetta ferli og ýmsar ábendingar sem rétt er að hafa í huga varðandi tilurð þessa máls.

Leggjum til hliðar þann ágreining sem hefur verið ræddur á þinginu og snýr að ógildingu kosningarinnar til stjórnlagaþings og allt sem að því snýr. Mér finnst rétt að hafa það ekki með í umræðunni hér en ég verð samt að benda á það sem kom fram í háskólanum. Það var kosið til stjórnlagaþings á sínum tíma og síðan varð niðurstaða meiri hluta þingsins að velja til setu í stjórnlagaráði þá sem hlutu flest atkvæðin í þeirri ógildu kosningu. Þá voru 500 manns í framboði sem fengu fimm mínútur hver í Ríkisútvarpinu til að kynna málstað sinn og á málþingi í háskólanum kom fram að þarna hefði kjósendum í landinu verið gert alveg sérstaklega erfitt fyrir að velja á milli málefna, um það sem einstakir frambjóðendur stóðu fyrir.

Það ætti að vera nokkuð ljóst að þegar 500 manns eru í framboði eru kjósendur í erfiðri stöðu með það að segja: Heyrðu, það eru þessi málefni sem mér hugnast hjá þessum og þessum frambjóðanda. Enda fengu þeir, eins og ég sagði, um það bil fimm mínútur til að kynna sig hver í Ríkisútvarpinu og sumt af því skilst mér að hafi verið spilað á nóttunni.

Að mati þeirra sem fluttu erindi á þessu málþingi var það þannig eftir kosninguna til stjórnlagaþings að þeir sem fengu kjör, og voru síðar kosnir af þinginu, höfðu í raun frjálsar hendur vegna þess að það var ekki kosið um neina sérstaka stefnu. Ég kannast heldur ekki við neina umræðu um það eftir að kosningin fór fram að þingræðissinnarnir hafi sigrað eða þeir sem vildu efla völd forsetans eða þeir sem töluðu sérstaklega fyrir breytingum á kosningakerfinu. Hver kannast við að slík umræða hafi átt sér stað? Hver getur bent mér á eitthvert dæmi um að eitthvert málefnalegt sjónarmið hafi orðið ofan á í kosningunni á sínum tíma? Það eru auðvitað engin dæmi um það.

Þess vegna tel ég að það sé rétt sem fram kom hjá fyrirlesurum á þessu málþingi, að stjórnlagaráðið hafði á endanum afskaplega lausbundnar hendur, algjörlega opið umboð til að gera hvers kyns breytingar á stjórnarskránni eftir því sem umræða þar mundi þróast. Þetta finnst mér mikilvægt að menn hafi í huga vegna þess að þegar erindisbréf var skrifað til stjórnlagaráðsins á sínum tíma var gefið í skyn að hugsunin væri að einkum þeir kaflar sem ekki hefðu komið til endurskoðunar frá því að stjórnarskráin var sett á sínum tíma kæmu til skoðunar í stjórnlagaráði. Engu að síður er hér komin fram stjórnarskrá þar sem hún er í heild sinni tekin til endurskoðunar.

Fleira kom fram á þessu málþingi. Það var bent á að óvarlegt væri að hreyfa mjög við köflum eins og mannréttindakaflanum. Það kom jafnframt fram í umsögn lögfræðinganefndarinnar sem skilaði nýlega af sér. Reyndar segir sú lögfræðinganefnd að þar sé um slík grundvallarréttindi að ræða að það þurfi að hafa strangari reglur um endurskoðun á þeim greinum stjórnarskrárinnar með því að gera áskilnað um tvö Alþingi með kosningum á milli og þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta finnst mér skipta máli þegar við horfum til þess að í því frumvarpi sem hér er lagt fram er gerð tillaga um fjölmargar breytingar á mannréttindaákvæðunum.

Á umræddu málþingi kom jafnframt fram gagnrýni á aðra þætti. Til dæmis var bent á að hér væru gerðar grundvallarbreytingar á stjórnarskránni sem ekki hefðu verið færð fyrir nægileg rök, eins og það að með þessari stjórnarskrá, þessari tillögu, er stigið skref sem menn hafa ekki séð stigin annars staðar með einhverju einkennilegu samspili sterks forseta sem er þjóðkjörinn, þingræðis og síðan ríks frumkvæðisréttar þjóðarinnar til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslna. Þetta sambland sem er að finna í þessari stjórnarskrá hefur hvergi annars staðar verið reynt og menn eru að stíga mikið óvissuskref hvað varðar áhrif á þingræðið, samskipti þings og forseta og síðan breytingar á lögum, jafnvel á stjórnarskrá, fyrir frumkvæði þjóðarinnar eftir því hvernig vindar blása í þjóðfélaginu hverju sinni.

Mér finnst þetta eitt og sér svo stórt skref að það þarfnist sérstakrar skoðunar. Ég vænti þess að þetta sé meðal þess sem Feneyjanefndin fær að tjá sig um, en fyrir mér væri þetta eina atriði nægjanlegt verkefni fyrir þingið til að einbeita sér að í vetur til að skoða, þótt ekkert annað kæmi til skoðunar.

Annað sem bent var á er að hér er um að ræða mjög viðamiklar breytingar á kosningakerfinu. Með því að hér er fléttað saman nýju kosningafyrirkomulagi, annars vegar með persónuvali og hins vegar landslistavali og síðan opnu fyrirkomulagi hvað það snertir að það er hægt að búa til kjördæmi með almennum lögum — og við höfum ekkert frumvarp á þinginu um þau nýju kosningalög — rennum við algjörlega blint í sjóinn með það hvers konar kosningakerfi við fáum í framhaldinu.

Í raun er bara tvennt hægt að segja um þann kafla. Í fyrsta lagi er augljóst að landsbyggðarþingmönnum mun fækka stórkostlega. Það gerist annars vegar vegna þess að atkvæðavægið verður jafnað og hins vegar vegna þess, sem bent hefur verið á í umræðunni, að með landslistakjöri eru allar líkur til þess að fulltrúarnir komi fyrst og fremst af því svæði þar sem mannfjöldinn er mestur og talað er fyrir sjónarmiðum sem helst eiga upp á pallborðið í þéttbýlinu. Þetta tvennt hefur verið sagt í umræðunni, en við höfum ekkert um það í þessu skjali. Sérfræðingar hafa bent á það að undanförnu að þetta tvennt geti leitt til þess að þingmönnum á landsbyggðinni muni fækka stórkostlega. Þess vegna finnst mér mjög ámælisvert að lagt sé fram frumvarp eins og þetta þar sem slíkar breytingar eru lagðar til og menn mæla hér fyrir þeim án þess svo mikið sem að koma inn á þetta.

Það er í sjálfu sér hægt að skilja rökin fyrir jöfnu vægi atkvæða en á móti rökunum fyrir jöfnu vægi atkvæða koma líka önnur sjónarmið og þegar þau eru metin saman með þeim miklu breytingum sem mundu fylgja landskjöri svona stórs hluta þingmanna er það ekki bara sjálfsögð krafa heldur er skylda þeirra sem mæla fyrir slíkum breytingum að tefla fram rökunum. Ég kalla eftir því að menn útskýri þau við þessa umræðu fyrir kjósendum í þessu landi, þeir sem styðja þessa tillögu þar sem þingmönnum landsbyggðarinnar gæti þess vegna fækkað niður í um það bil 11 og kjördæmabreytingin tekið stakkaskiptum.

Á því málþingi sem ég vísaði til var fjölmargt fleira rætt. Það var bent á að í þjóðaratkvæðagreiðslunni hefði ekki, í hinum sérstöku spurningum frá tvö og niður, verið spurt um þær útfærslur sem hér er að finna heldur eingöngu það hvort það hugnaðist kjósendum til dæmis að auka persónukjör, jafna vægi atkvæða, hafa þjóðkirkjuákvæði áfram í stjórnarskránni eða ekki og opna fyrir möguleikann á þjóðaratkvæðagreiðslum. Þeirra spurninga var spurt en ekki um þær útfærslur sem hér er að finna. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að við séum á engan hátt bundin af þeim útfærslum sem hér er að finna um þessi atriði. Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að persónukjör er hægt að auka með ýmsum hætti, ekki bara þeim sem ég hef hér rakið og er að finna í kaflanum um breytingar á kosningakerfinu heldur væri til dæmis væntanlega minnsta skrefið í þá átt fólgið í því að menn ykju vægi útstrikana. Svo má sjá fyrir sér breytingar með ýmsum hætti.

Einnig var bent á það í þessum fyrirlestri að önnur atriði í tillögunum væru ekki nægjanlega vel rökstudd. Það sem hefur valdið mér mestum áhyggjum frá því að þessir fyrirlestrar hófust eru viðbrögðin, t.d. frá aðstoðarmanni forsætisráðherra sem kallaði málþingið í heild sinni steypu. Viðbrögðin frá formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar voru á þá leið að þessir fræðimenn væru í fílabeinsturni og þyrftu að vanda sig betur. Þeim er sendur tónninn og væntanlega er þar með sleginn tónninn fyrir umræðuna sem verður í vetur. Sérfræðingum sem hafa áhuga á málinu og munu tjá sig um það í vetur er sendur tónninn. Þeir hafa fengið að vita núna, strax á fyrstu dögum þessa máls, að ef þeir andmæla því, benda á eitthvað sem betur mætti fara eða vekja athygli á því sem þeim þykir gagnrýnivert í þessu fá þeir að heyra það frá forsætisráðherranum og formanni nefndarinnar. Þeir fá hvassar skeytasendingar, það er bloggað og það verður talað úr þessum ræðustóli til þjóðarinnar allrar og þeim svarað beint. Þetta eru fyrstu viðbrögðin sem við fáum við málefnalegri gagnrýni á aðdraganda þess að þetta frumvarp kemur hér fram og efnislega þætti þess. Það boðar ekki gott.

Það er mín skoðun að áður en þetta mál kom fram á þinginu hefði það betur farið til betri skoðunar hjá sérfræðingum. Ég tel bráðnauðsynlegt að þetta mál verði ekki sent til Feneyjanefndarinnar heldur fari það til alvöruefnislegrar skoðunar heima fyrir hjá þeim sérfræðingum sem við búum yfir sem þekkja íslenskan stjórnskipunarrétt, íslenskar hefðir, þingræðisregluna á Íslandi og framkvæmd hennar í áratugi. Hvers vegna er þessu fólki ekki treyst? Hvers vegna er talað svona til þessa fólks? Hvað á það að þýða að hefja þessa vinnu í einhverjum svona stellingum og átökum? Hvers vegna?

Er það vegna þess að hér er í boði allt eða ekkert? Er það vegna þess að það á að þvinga þetta í gegn? Mér hugnast ekki hugmyndin um að þetta mál fari á endanum ekki í þann feril sem stjórnarskráin boðar heldur í enn eina þjóðaratkvæðagreiðsluna til (Forseti hringir.) að skapa einhverja stemningu fyrir þingið sem síðan tekur við málinu. Það er svo margt sem maður vildi gjarnan fara yfir á þeim stutta tíma (Forseti hringir.) sem manni er skammtaður en þetta er það helsta sem ég hef að segja um málið á þessu stigi, herra forseti, og ég vænti þess að þetta mál fái í vetur allan þann tíma sem efnið krefst.