141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að taka af allan vafa er hárrétt hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni að það var ekki rætt sérstaklega í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að hafa samband við Feneyjanefndina, við töluðum um möguleikann á því. Síðan lýsti hv. þm. Ólöf Nordal því yfir hér í ræðu að henni litist vel á það. (ÓN: Það er ekki nefnd.) — Nei, það er ekki í nefnd, ég veit það. Ég er að segja að ekki hafi verið fjallað um það sérstaklega í nefndinni en við nefndum þann möguleika. Hún lýsti því hér yfir. Meiri hluti nefndarinnar var þessarar skoðunar þannig að ég hafði samband við Feneyjanefndina og það er ljóst að nefndin telur sig geta gert þetta.

Er formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, að ýja að því að hann sé á móti því að við spyrjum nefndina að þessu?

Svo vil ég líka segja að auðvitað voru nefnd einhver atriði í því bréfi sem sent var, en það er enginn vandi að útvíkka það og nefna fleiri atriði. Við höfum svolítið verið að bíða eftir því að fá eitthvert efni og tillögur og eitthvað sem við getum rætt við stjórnarandstöðuna vegna þess að hún hefur hingað til ekki verið tilbúin til þess. Hún hefur annars vegar sagst vera á móti 114 greinum og hins vegar hefur hún sagt að allt ætti að fara í tætarann. (Gripið fram í.)