141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er fullkomlega óljóst hvað þingmaðurinn á við varðandi efnislegar breytingar. Er þingmaðurinn þeirrar skoðunar að þinginu sé mjög þröngur stakkur sniðinn til breytinga á tillögunum sem eru komnar fram? Eða er þingmaðurinn að segja að þingið hafi frjálsar hendur eftir því sem vinnunni vindur fram?

Því er beint til mín hvort ég geti séð fyrir mér auðlindaákvæði í stjórnarskránni. Já, ég get vel séð fyrir mér auðlindaákvæði í stjórnarskránni. Ég tel til dæmis að tillaga stjórnlaganefndarinnar hefði verið góður grunnur að umræðunni, en á bls. 243 í skýrslu stjórnlaganefndar og síðunum þar á eftir er að finna nokkur dæmi um auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem við gætum haft sem grunn. Ég hef hins vegar verið gagnrýninn á þá útfærslu sem stjórnlagaráð kom sér saman um, meðal annars vegna þeirrar óvissu sem slíku ákvæði fylgdi.

Ég spyr mig: Hvaða breytingar mun það hafa í för með sér ef tekin verður ákvörðun um það að banna veðsetningu á nýtingarleyfum t.d. í sjávarútvegi? Hvaða áhrif mun það hafa á sjávarútvegsfyrirtækin í landinu? Mun það verða til góðs eða mun það verða til ills? Mun það auka eða draga úr fjárfestingum í greininni, auka eða draga úr arðsemi í greininni, auka eða draga úr þjóðhagslegri hagkvæmni veiðanna og þar með arði til þjóðarinnar allrar? Ég kalla eftir því að menn sem lagt hafa fram frumvarp sem geymir slíkt ákvæði færi fyrir því skýr rök.

Ég er líka þeirrar skoðunar að við ættum að ræða það að auka vægi persónukjörs, en það eru bara svo fjölmargar ólíkar leiðir til að ná því markmiði. Ég hef ekki séð fullnægjandi rök fyrir þeirri leið sem hér er lögð fram, þess vegna leyfi ég mér að vera gagnrýninn á hana. Mér finnst það standa upp á þá sem mæla fyrir henni, sem mæla fyrir breytingum sem (Forseti hringir.) leitt gætu til þess að þingmenn landsbyggðarinnar verði 11, að þeir komi hingað og færi rök fyrir máli sínu.