141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:06]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ítreka þá skoðun mína að ég tel að sjálfsögðu að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi að leita til innlendra sérfræðinga til að taka út það frumvarp sem hér er lagt fram, að við vinnum málið eins og við erum vön að gera í þingnefndum, þ.e. að við leitum til sérfræðinga til þess að taka út frumvarpið. Við getum kallað það álagspróf eða heildstæða nálgun eða skoðun þar sem rýnt er sérstaklega í einstakar greinar. Að sjálfsögðu eigum við að gera það. Við eigum að vanda okkur við þau skref sem við hyggjumst taka á næstu missirum. Markmið okkar á að vera að gera vandaðar breytingar á stjórnarskrá Íslands til að fanga þann þjóðarvilja sem birst hefur í þjóðfundi, stjórnlagaráði og í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er verkefni okkar á næstu vikum. Því verkefni eigum við að ljúka fyrir næstu kosningar.