141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Loksins ræðum við hugmyndir stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá efnislega. Við höfum reyndar rætt það áður í sérstakri lengdri umræðu sem tókst að knýja fram fyrir kosninguna eða skoðanakönnunina. Svo leyfði ég mér þegar rætt var um ferlið að fara efnislega í gegnum einstaka liði af því ég hef mjög mikinn áhuga á þessu máli. Ég skilaði einnig inn umsögn upp á 37 síður en það er mjög óvenjulegt að þingmaður skili inn umsögn til nefndar.

Mig langar til að spyrja hv. varaformann nefndarinnar Álfheiði Ingadóttur, sem ég þakka fyrir góða ræðu, hvort hún telji eðlilegt að flytja hluta af lagasafninu, t.d. um þingsköp og kosningareglur inn í stjórnarskrá, þ.e. að taka efnislegar reglur sem hafa virkað ágætlega og setja þær inn í stjórnarskrá þar sem þær verða óbreytanlegar.

Í öðru lagi vil ég spyrja hana um eitt ákvæði sem segir að allir hafi meðfæddan rétt til lífs, hvað það þýði viku fyrir fæðingu. Ef rétturinn fæðist með manninum er enginn réttur til lífs viku fyrir fæðingu. Ég spyr hvort þetta bjóði ekki upp á alls konar túlkanir á fóstureyðingum, hættulega miklar.

Síðan vil ég spyrja hana um breytingar á stjórnarskrá. Samkvæmt þeim hugmyndum sem hér koma fram með breyttri tillögu nefndarinnar — hún er breytt frá því sem var því það voru makalaus ákvæði í fyrri greininni þar sem þingið gat eiginlega tekið stjórnarskrána í sínar hendur — vil ég spyrja hana hvort þær breytingar sem hér eru lagðar til séu ekki allt of auðveldar. Það getur komið upp einhver andi í þjóðfélaginu, t.d. varðandi fiskveiðistefnuna, og menn geta þá tekið út auðlindaákvæðið með tiltölulega einföldum hætti eða bætt inn einhverju miklu sterkara. Meiri hluti Alþingis, 17 þingmenn af 33, eða meiri hluti kjósenda, kannski 20% af 39, getur breytt (Forseti hringir.) stjórnarskránni.