141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það var ágætt. En mig langar til að spyrja hann út í breytingar á stjórnarskrá. Nú er það þannig að þjóðin mun að öllu jöfnu aldrei greiða atkvæði um þessa nýju stjórnarskrá sína með bindandi hætti. Ég hef lagt fram frumvarp um að 79. gr. verði breytt fyrst og eftir það verði þjóðinni heimilt að breyta stjórnarskránni með bindandi hætti með ákveðnum þröskuldum. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði um þröskuldana, það má ekki vera of auðvelt og það má ekki vera of erfitt.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er ekki sjálfgefið að það frumvarp sem ég hef lagt fram og liggur inni í nefndinni sé sent til Feneyjanefndarinnar ásamt tillögum stjórnlagaráðs og nefndarinnar? Jafnvel þó maður fari í einhverjar æfingar að setja inn í gildandi stjórnarskrá að hún skuli taka gildi þegar þjóðin hefur greitt um það atkvæði með bindandi hætti, þá er spurningin hvað gerist í millitíðinni. Er þá engin stjórnarskrá? Vegna þess að sú gamla er fallin úr gildi með nýju stjórnarskránni og hún hefur ekki tekið gildi fyrr en þjóðin hefur greitt um það bindandi atkvæði. (Forseti hringir.) Þetta þarf að vera rökfræðilega skothelt.