141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:34]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég stend við það að einstakt og einstaklega gott vinnulag var við undirbúning þessa verks og að þúsundir, tugþúsundir og hundruð þúsunda hafa komið að því. Ég nefni aftur að yfir 115 þús. manns tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október og það er þátttaka sem sýnir að þetta verkefni skiptir þjóðina máli. Yfir 80 þús. manns tóku þátt í að kjósa til stjórnlagaþings um árið. Það er líka dæmi um það hversu mikilvægt menn telja þetta mál og við skulum ekki tala það niður. Ég tel þetta vinnu og aðkomu sem vert er að virða, muna eftir og þakka fyrir.

Já, það komu fjölmargar athugasemdir til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og hv. þingmaður spyr: Hvar sér þess stað? Þess sér stað í mörgum atriðum vegna þess að á sameiginlegum fundi sem við héldum með stjórnlagaráðinu í mars síðastliðnum — breytingarnar sem stjórnlagaráðið gerði, þeim var skilað, held ég, 27. mars eða um það leyti á þessu ári, þá var haldinn sérstakur fundur — var farið yfir þær athugasemdir sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfðu borist og við töldum ástæðu til að taka upp við ráðið. Þess sér stað. Ég vil nefna kosningakaflann, hann er mjög mikið breyttur frá frumvarpi stjórnlagaráðs. Ég vil líka nefna, bara af handahófi, dæmi um það hvenær leggja megi niður sjálfstæðar stofnanir sem ákvæði var um frá stjórnlagaráði. Til samræmis var þar tekið upp að sömu aðferðafræði þyrfti að beita við að setja slíkar stofnanir á legg.

Ég er ekki með skilabréfið fyrir framan mig en ég fullyrði að það var sannarlega hlustað á þetta og þess sér stað í tillögunum. Hv. þingmanni hlýtur að hafa misheyrst eða ég mismælt mig, ég get ekki hafa sagt og ég vil ekki segja að hlustað hafi verið á og farið eftir öllum athugasemdum og ábendingum. (Forseti hringir.) En að hlusta á allt, það er rétt.