141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri ekki margar athugasemdir við ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur í þessu sambandi, þ.e. ég geri engar athugasemdir við að þetta verði sent til Feneyjanefndarinnar og ég fagna því að við eigum von á áliti frá henni. Ég held að það verði mjög gagnlegt. Ég áskil mér rétt til að bæta við atriðum sem óskað er eftir áliti frá Feneyjanefndinni um, eins og ýjað var að í umræðum fyrr í dag.

Ég held hins vegar að það sé ekki það heildstæða mat sem sérfræðinganefndin var að hugsa um. Ég held að hún hafi verið að hugsa um heildstætt mat sem færi fram á tillögunum og að leitað yrði álits Feneyjanefndarinnar; ekki að Feneyjanefndin kæmi í staðinn fyrir heildstæða matið heldur væri þarna um tvo verkþætti að ræða. Við getum auðvitað rætt þetta nánar þegar málið kemur inn í nefndina en ég held að ábendingar sérfræðingahópsins að þessu leyti séu þess virði að þær verði skoðaðar. Ég held að töluverður þungi og alvara sé (Forseti hringir.) í orðum sérfræðingahópsins varðandi þennan þátt. Ég er ekki viss um (Forseti hringir.) að einfaldur umsagnarferill lagafrumvarpa (Forseti hringir.) dugi til að uppfylla (Forseti hringir.) kröfuna um heildstætt mat.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)