141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:43]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að að lokum fer hið heildstæða mat fram hér í þingsal og síðan hjá þjóðinni. Heildstætt mat á stjórnarskrármálefnum er hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar samkvæmt þingsköpum. Það er verkefni þeirrar nefndar að búa mál í þann búning að þingheimur geti tekið afstöðu og geti lagt heildstætt mat á það frumvarp sem til afgreiðslu er hverju sinni.

Við höfum vandað okkur gríðarlega mikið í hverju skrefi það sem af er þessa ferlis og við munum og við ætlum okkur að gera það áfram. Ég fagna því að hv. þingmaður lýsir yfir stuðningi við þá hugmynd að allir þingmenn komi að þessu og allar nefndir þingsins og enn fremur að Feneyjanefndin fari yfir það sem beðið hefur verið um og jafnvel eitthvað það fleira sem menn kunna að vilja beina til hennar svo framarlega að það falli að verksviði nefndarinnar.