141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:05]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég mátti til með að koma hingað upp og leiðrétta hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson í sambandi við það sem hann sagði um Jón Kristjánsson, fyrrverandi þingmann, og þá nefnd sem hann leiddi í stjórnarskrármálum á sínum tíma. Sú víðtæka sátt sem auglýst er eftir í dag hefur aldrei náðst. Hún náðist ekki heldur undir stjórn Jóns Kristjánssonar og þess vegna lagði hann til í kjölfarið á því að kosið yrði stjórnlagaþing til að skrifa Íslandi nýja stjórnarskrá því að hann vissi það jafn vel og ég og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og jafnvel allir aðrir þingmenn hér inni að það mundi aldrei nást víðtæk sátt á Alþingi um nýja stjórnarskrá. Alþingi hefur ekki burði í verkið, getur ekki afgreitt málið. Þess vegna var því útvistað. Það verður aldrei alhliða sátt í þinginu um nýja stjórnarskrá. Þá er ekki um annað að ræða en spyrja þjóðina ráða. Það er fyllilega eðlilegt að gera það.

Núverandi frumvarp er hins vegar byggt á allri þeirri vönduðu vinnu sem Jón Kristjánsson leiddi á sínum tíma (Gripið fram í: Já.) þannig að það er alls ekki eins og verið sé að draga hér einhverjar tillögur upp úr hatti. Frumvarpið er meðal annars byggt á allri þeirri vinnu og vinnu undanfarandi stjórnarskrárnefnda. Það er byggt á því ferli sem Alþingi samþykkti samhljóða með atkvæðum þingmanna Framsóknarflokksins á sínum tíma, að það yrði stjórnlaganefnd, þjóðfundur og síðan yrði kosið stjórnlagaþing.

Það er einfaldlega rangt sem hv. þingmaður heldur hér fram og það er til skammar, þegar verið er að auglýsa eftir efnislegri umræðu um stjórnarskrármálið, að farið sé fram með þessum hætti af formanni stjórnmálaflokks, af yfirgripsmikilli vanþekkingu og rangfærslum. Það er náttúrlega til skaða fyrir hann og flokk hans. Ég skora á hann að ganga hreint til verks og leggja fram efnislegar tillögur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, en fyrsta skrefið í því máli er (Forseti hringir.) að sjálfsögðu að fulltrúi flokksins í þeirri nefnd geti rætt um málið á efnislegum forsendum, (Forseti hringir.) hingað til hefur sá fulltrúi ekki getað það.