141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:09]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að heyra þetta. Það er lýst eftir vönduðum vinnubrögðum við breytingar á stjórnarskrá og með því er hv. þingmaður að taka undir þá vinnu sem unnin hefur verið hingað til því að hún hefur verið mjög vönduð. Það er gott að heyra það.

Mig langar að benda á eitt: Það hefur aldrei náðst sátt á Alþingi um mikilvægasta málið í lýðræðisríkinu, hvort atkvæði í landinu skuli vega jafnt. Þetta er grundvallaratriði í ríki sem kallar sig lýðræðisríki. Það hefur aldrei náðst sátt um það á Alþingi vegna flokkadrátta stjórnmálaflokka á þingi. Það er eitt hrópandi dæmi um það hvað Alþingi hefur gengið illa að endurgera stjórnarskrána.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði áðan um spurningarnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni er rétt að benda á að þær voru valdar vegna þess að spyrja átti um nýmæli í stjórnarskránni. Þær voru ekki dregnar upp úr hatti. Þær voru valdar eftir vandlega yfirvegun og yfirlegu um það hvað væri nýmæli og þess vegna var almenningur spurður um skoðun sína á þeim atriðum.