141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, þetta er ágætisdæmi um mikilvægi umræðunnar sem fram undan er. Ég held líka að þetta sé dæmi um það að umræðan hefði orðið miklu skilvirkari ef búið hefði verið að fara yfir slíka vankanta áður en frumvarpið var lagt fram.

Þegar menn leggja fram frumvarp eru þeir yfirleitt að leggja fram það sem þeir telja að eigi að fást samþykkt á endanum, eftir að fólk hefur haft tækifæri til að skila um það áliti. En það að leggja fram plagg sem menn vita að er á ýmsan hátt gallað er býsna undarleg nálgun, ég tala nú ekki um þegar verið er að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá.