141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:34]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Það er svolítið vont að fá bara tvær mínútur til að svara þessu öllu.

Þingmaðurinn spyr: Olli gildandi stjórnarskrá hruninu?

Ég tel svo ekki vera. Hrunið var mannanna verk, en ég held að gildandi stjórnarskrá hafi auðveldað að það varð. Það var erfiðara fyrir almenning að grípa inn í. Það var auðveldara fyrir stjórnvöld á hverjum tíma að fara með valdið eins og þeim sýndist. Það er mjög hættulegt.

Hvað varðar umsagnir sem bárust til nefndarinnar í fyrravetur kannast ég vel við umsögn þingmannsins. Ýmislegt í henni er í ágætum samhljómi við það sem lögfræðingahópurinn lagði til, t.d. að draga úr orðalaginu „að tryggja með lögum“ og það er sett saman þannig að ég held að að einhverju leyti hafi þegar verið komið til móts við það sem þingmaðurinn lagði til.

Ég er ekki sammála því að í texta stjórnlagaráðs sé mikið um skrúðmælgi. Mér finnst sá texti vera á tærri og hreinni íslensku. Til að svara spurningunni að einhverju leyti hvort þræll geti lifað með reisn tel ég að svo sé ekki. Ég skil „að lifa með reisn“ þannig að þá þurfi einstaklingurinn visst frelsi.