141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ánægjuefni og merkilegur áfangi að við séum að taka til 1. umr. frumvarp að nýrri heildstæðri stjórnarskrá fyrir Ísland. Við þekkjum öll sögu og tilurð þessa frumvarps. Ég hef sagt það áður og segi enn að ég tel að það lýðræðisferli sem Alþingi mótaði vorið 2010 hafi verið þinginu til mikils sóma. Með ákvörðun sinni þá sýndi Alþingi því skilning að heildstæð endurskoðun stjórnarskrárinnar er stærra mál en svo að það yrði alfarið til lykta leitt innan Alþingis, heldur þurfi jafnframt að tryggja ríka aðkomu almennings að endurskoðunarferlinu öllu.

Það er ástæða til að hrósa vinnu sérfræðingahópsins sem tók að sér í umboði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að yfirfara tillögur stjórnlagaráðs með tilliti til lagatæknilegra atriða og samræmis við mannréttindasáttmála og búa frumvarpið svo vel úr garði sem raun ber vitni. Faglegri og þar með talið lögfræðilegri skoðun málsins er þó ekki lokið. Áfram verður að vinna að málinu af einurð og með aðstoð færustu sérfræðinga sem völ er á. Það er því fagnaðarefni að þegar skuli hafa verið ákveðið að leita álits hjá Feneyjanefnd Evrópuráðsins sem skipuð er sérfræðingum á þessu sviði, en nefndin hefur sérstaklega verið beðin um að leggja mat á verkaskiptingu og samskipti á milli æðstu handhafa ríkisvalds samkvæmt frumvarpinu og gefa álit á ákvæðum frumvarpsins er lúta að þjóðaratkvæðagreiðslum og breyttu kosningafyrirkomulagi.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að alþingismenn hafi í huga að þær tillögur sem fyrir liggja eru sprottnar úr grasrót samfélags okkar og sýni því virðingu. Tillögurnar eru ekki flokkspólitískar í eðli sínu og mikilvægt að flokkarnir á Alþingi reyni ekki að draga þær í dilka heldur ræði þær málefnalega. Við eigum að hafa hugfast að meiri hluti kjósenda hefur þegar í þjóðaratkvæðagreiðslu lýst þeim vilja sínum að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Í þessu ljósi hef ég lýst því yfir að skýr og gild rök þurfi að koma til eigi að víkja frá tillögum stjórnlagaráðs í einhverjum grundvallaratriðum. Komi slík rök hins vegar fram hljóta menn að skoða þau af fullri ábyrgð og ekki má útiloka efnisbreytingar á grundvelli slíkra röksemda.

Hef ég þar meðal annars í huga þau atriði sem sérfræðingahópurinn taldi ástæðu til að vekja athygli á í skilabréfi sínu og að sama skapi er nauðsynlegt að þingið skoði rækilega þær athugasemdir og ábendingar sem Feneyjanefndin kann að gera.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það olli mér vonbrigðum í umræðum fyrr í dag að formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, lýsti því hreinlega yfir í ræðustól að óraunhæft væri að afgreiða þetta mál fyrir kosningar. Finnst mér það eiginlega ótímabær yfirlýsing þegar við sjáum ekki til lands í þessu efni, hvort hægt sé að ná breiðari sátt um þetta mál en nú virðist liggja fyrir af þeim umræðum sem hér hafa farið fram.

Ég vil líka segja að mér komu á óvart ummæli hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að ég hefði gagnrýnt mjög ábendingar frá lögfræðingum og sérfræðingum sem hafa komið fram í þessu máli, þ.e. annarra en sérfræðinganefndar, vegna þess að það er alrangt. Það hef ég aldrei gert og tel nauðsynlegt að leiðrétta það úr þessum ræðustól.

Fyrirliggjandi frumvarp inniheldur fjölmargar merkilegar breytingar frá núgildandi stjórnarskrá. Því er lýst að allt ríkisvald spretti frá þjóðinni sem endurspeglast aftur í ákvæðum um aukið persónukjör í alþingiskosningum, í rétti þjóðarinnar til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu, um samþykkt lög til hliðar við málskotsrétt forseta og rétt til þjóðarfrumkvæðis þar sem þjóðin sjálf getur sett mál á dagskrá þings. Þá er kveðið á um jafnan atkvæðisrétt allra kosningarbærra einstaklinga.

Fjölmörg nýmæli eru í mannréttindakaflanum. Ákvæði um efnahagsleg og félagsleg réttindi eru styrkt, líka er tekið á ákvæði um tjáningarfelsi og upplýsingarétt í mannréttindakaflanum þannig að þau séu í fullu samræmi við alþjóðasáttmála.

Það er lýst þjóðareign á náttúruauðlindum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti og skýrt tekið fram að slíkar auðlindir megi aldrei afhenda öðrum en þjóðinni með varanlegum hætti. Þetta mál um þjóðareign á náttúruauðlindum hefur í gegnum mörg ár verið til umræðu á þinginu og minn flokkur og fleiri hafa lagt mikla áherslu á að þetta auðlindaákvæði nái fram að ganga. Ég vona að sú umfjöllun sem nú fer fram um breytingar á stjórnarskránni verði til þess að þetta mál nái fram að ganga og komist í stjórnarskrána.

Sjálfstæði Alþingis er styrkt í þessum tillögum með því til dæmis að ráðherrar eigi þar ekki lengur sæti og skerpt er á eftirlitsheimildum með ríkisstjórn. Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis fá stjórnarskrárvernd. Forustuhlutverk forsætisráðherra í ríkisstjórn er undirstrikað og samheldni um mikilvægar ákvarðanir er efld og er það til samræmis við þróun á undanförnum árum. Eru ábendingar um það í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Eftirlit með stjórnarskránni er aukið með tilkomu Lögréttu. Hlutverk forseta lýðveldisins er betur afmarkað í samræmi við þá stefnu að stjórnarskráin sé skýr um það hvar völd og ábyrgð liggi. Skýrari umgjörð er mótuð um þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og loks tryggt að þjóðin hafi lokaorðið um allar stjórnarskrárbreytingar framvegis.

Virðulegi forseti. Nú tekur við efnisleg umræða í nefndum Alþingis. Ég tel að það vinnulag sem hér hefur verið lýst af hálfu fulltrúa í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé gott og til þess ætlað að tryggja að það verði góð umfjöllun um þetta mál á Alþingi. Markmiðið er auðvitað góð stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs, stjórnarskrá sem tekur sem mest mið af vilja þjóðarinnar eins og hann hefur birst í öllum aðdraganda þessa máls sem er nú orðinn nokkuð langur.

Mat Feneyjanefndar Evrópuráðsins mun liggja fyrir seinni partinn í janúar ef ég skil málið rétt. Ég tel að við þurfum að nota tímann vel fram að því. Sjónarmið þingmanna sem fram koma í 1. umr. málsins hljóta að nýtast stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vel við áframhaldandi umfjöllun nefndarinnar á milli 1. og 2. umr. Það er nauðsynlegt að hlusta vel á alla efnislega gagnrýni og röksemdir sem fram verða settar og skoða hvort hægt sé að bregðast við henni þannig að sem breiðust sátt geti náðst um málið. Þannig eigum við að halda á málum svo að það geti að minnsta kosti verið von til þess að hægt verði að ná breiðri sátt um þetta mál. Það má þó aldrei verða til þess að sú breiða sátt verði á kostnað þess að mikilvægum atriðum í þessum stjórnarskrártillögum verði kastað fyrir róða.

Stjórnlagaráð hefur lagt mjög mikla vinnu í þetta mál sem og þjóðfundur og margir hafa komið að því. Ég tel að okkur beri skylda til þess að virða þær tillögur sem fram hafa komið og það þurfi að vera sterk rök fyrir því að gera mikilvægar efnisbreytingar á frumvarpinu. Við eigum þó aldrei að útiloka það fyrr en við erum búin að fara vel yfir þetta mál og við eigum að hlusta á alla sérfræðinga sem hafa eitthvað mikilvægt fram að færa. Á það legg ég áherslu.

Í lokin vara ég við tvennum öfgum í þessu máli, annars vegar að reyna að stilla Alþingi upp við vegg og taka af því réttinn til að fara gagnrýnið yfir málið og hins vegar að leggja stein í götu þess að verkefnið heppnist af annarlegum hvötum. Sumir tala um að áfangaskipta þurfi verkinu, en þá er sú hætta að heildarsamræmi í tillögunum geti tapast og einnig að þjóðinni finnist hún svikin um það loforð að fá nýja stjórnarskrá. Ekki hafa heldur komið fram rök fyrir því hvað nákvæmlega sé nógu þroskað til að fara í gegn á þessu þingi og hvað eigi að bíða. Ég tel mikilvægt að við lítum heildstætt á þetta mál.

Nokkur umræða hefur orðið um það í dag að þótt gerðar hafi verið tilraunir til þess í meira en hálfa öld að ná fram heildstæðum breytingum á stjórnarskránni hefur Alþingi samt ekki borið gæfu til þess að aðrar eins breytingar hafi verið gerðar og á mannréttindakaflanum. Það hefur verið vegna þess að menn hafa ekki borið gæfu til þess að ná sameiginlegri niðurstöðu í málið eða láta reyna á það í atkvæðagreiðslu, en auðvitað eiga menn að reyna eins og kostur er og án þess að það komi niður á mikilvægum tillögum að ná sem breiðastri sátt um stjórnarskrána.

Ég skora á þingmenn að veita málinu brautargengi en reyna ekki að tefja það tafanna vegna og þá ítreka ég það sem ég hef áður sagt, ég tel að þjóðin eigi að fá annað tækifæri til að segja hug sinn um niðurstöðu Alþingis samhliða næstu þingkosningum. Það þarf ekki að vera þá, það gæti orðið á eftir. Það eru þrjár leiðir í því máli eins og hér hefur verið farið yfir. Ég útiloka enga þeirra, það þarf bara að skoðast vandlega í nefnd hvaða leið er hægt að ná samstöðu um til að þjóðin fái annað tækifæri til að segja hug sinn um niðurstöðu Alþingis í þessu máli. Við höfum fjóra mánuði til stefnu sem ég vek athygli á að er sami tími og stjórnlagaráðið hafði. Ég tel að við eigum að snúa bökum saman og nýta tímann vel og skipulega með aðstoð færustu sérfræðinga innan lands og utan. Við eigum að ljúka málinu með sóma, reyna það að minnsta kosti, og tryggja þjóðinni nýja og betri stjórnarskrá.