141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir það til marks um sleggjudóma yfir alþingismönnum liðinna ára þegar sá þingmaður sem hefur setið lengst á þingi, í u.þ.b. 35 ár, kemur fram og lýsir því yfir að ekki hafi tekist að breyta stjórnarskránni sem nokkru nemi. Kannski lýsir þetta meira hæstv. forsætisráðherra en nokkurn tíma þeim nýju þingmönnum sem hafa tekið sæti á Alþingi frá árinu 2007.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna er enn þá lagt til að úthýsa stjórnskipunarvaldi Alþingis, t.d. með því að dreifa því núna á allar nefndir þingsins? Það er skýrt ákvæði í þingsköpum um að stjórnskipunarmál skuli vera inni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hvers vegna var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ekki höfð með í ráðum og það tekið fyrir á formlegum fundi að leita álits hjá hinni (Forseti hringir.) ráðgefandi Feneyjanefnd?