141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:57]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við náum náttúrlega aldrei neinu fram sem máli skiptir í breytingum á stjórnarskránni ef alltaf á að horfa á lægstu samnefnara og allt þarf að ganga út á að fullkomin sátt þurfi að vera um málið, það er bara ekki þannig. Við höfum reynt, og reyndum það með Framsóknarflokknum 2009, að gera miklar breytingar á stjórnarskránni bæði að því er varðar auðlindaákvæðið, þjóðaratkvæðagreiðslu o.fl. Það náðist ekki fram og svona er hægt að rekja söguna aftur í marga áratugi og þingið hefur alls ekki náð þeim árangri sem æskilegt er í því efni.

Hv. þingmaður beinir því til framkvæmdarvaldsins og spyr um málsmeðferðina í þinginu, hvort hún eigi að vera í öllum nefndum. Mér hefur nú yfirleitt fundist að þingmenn hafi ekki viljað að forsætisráðherra eða aðrir væru að skipta sér af meðferð mála í þingum eða hvernig fastanefndir færu með málin. Ég tel að sú lýsing sem kom fram í dag hjá fulltrúum stjórnskipunarnefndar hafi verið mjög góð, (Forseti hringir.) að flestar nefndir þingsins fái að fjalla um einstaka kafla í þessum málum. Ef ég skil málið rétt er ekki (Forseti hringir.) formlega búið að afgreiða þetta í stjórnskipunarnefnd.