141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:08]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er í hópi þeirra sem hafa haft ákveðna fyrirvara á því að gera mjög miklar breytingar á stjórnarskrá eða skrifa nýja en á henni má alveg gera ýmsar gagnlegar breytingar og ýmislegt má vel við una í þessu plaggi.

Ég hjó eftir því að hæstv. forsætisráðherra nefndi að plaggið sé ekki flokkspólitískt í eðli sínu en það sem veldur mér áhyggjum, eða ég velti vöngum yfir, er það mikla svigrúm sem gefið er til breytinga á stjórnarskránni, bæði fyrir og síðan jafnvel í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu; breytingar og svigrúm sem geta auðveldlega orðið flokkspólitískt afl. Ég vil nefna eitt dæmi um það og það er 19. gr. sem fjallar um hina evangelísku lútersku kirkju. (Forseti hringir.) Þar er opnað á það að breyta með lögum þessu ákvæði í stjórnarskrá Íslendinga. Ég vil svar hæstv. forsætisráðherra við þessu.