141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólöfu Nordal innilega fyrir það að hefja hér efnislega umræðu því að hún er fyrsti þingmaður sem talar hér í ræðu, ég er ekki að tala um andsvör, efnislega um frumvarpið og ég vil þakka henni kærlega fyrir það.

Hún lagði áherslu á að ég hefði sagt að það væru gífurlegar breytingar frá fyrri stjórnarskrá, það er rétt, en það eru ekki gífurlegar breytingar alls staðar. Sumar eru gífurlegri, ef ég má svo að orði komast, en aðrar.

Þegar ég notaði orðið „gífurlegt“ var það á eftir þessu:

„Meðal fleiri nýmæla eru ákvæði um náttúru Íslands, umhverfi og auðlindir. Auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru samkvæmt þeim sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.“

Það var þetta sem ég sagði að væri gífurleg breyting. Þetta er gífurlega ánægjuleg breyting, tel ég vera, og ákvæðið allt eins og það er í tillögum stjórnlagaráðsins, eða því sem við höfum fengið aðeins umorðað og bætt frá lögfræðingahópnum.

Ég vil sem sagt þakka fyrir það. Ég tel að þau atriði sem hv. þm. Ólöf Nordal nefndi einmitt vera það sem við erum að hefja vinnu við núna, en ég tel að við ættum að hafa í huga í því öllu saman að það er okkar hér á Alþingi að taka ákvörðun. Auðvitað hlustum við á fræðimenn, en við getum verið á annarri skoðun en þeir og fræðimenn eru heldur ekki allir sammála.

Ég tel að við ættum líka að hafa það í huga að við erum þau sem (Forseti hringir.) ákveða í þessum efnum.