141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að spyrja hv. þingmann út í atriði sem kom til umræðu eftir ræðu hv. þingmanns í andsvörum hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Hv. þingmaður hnykkti á því þar að þær breytingar sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir telur gífurlegar breytingar á stjórnarskránni séu einkum þær sem felast í auðlindaákvæðinu svokallaða.

Þetta er auðvitað ákvæði sem töluvert hefur verið rætt alllengi varðandi umræður um breytingar á stjórnarskrá og ég hef skilið það sem svo að um slíkt ákvæði hefði verið hægt að ná samstöðu og sátt. Þó er ég ekki alveg viss um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þessa ákvæðis, það fer tvennum sögum af henni. Því vil ég biðja hv. þingmann að útskýra hver afstaða Sjálfstæðisflokksins til auðlindaákvæðisins svokallaða er, hvort hv. þingmaður telur að möguleiki hefði verið á að ná víðtækri samstöðu allra flokka um breytingar á slíku ákvæði og þá á hvaða forsendum, og jafnframt á hvaða hátt, ef einhvern, tillagan sem hér er til umræðu, ákvæði um auðlindir, er frábrugðin því sem hv. þingmaður telur ásættanlegt.