141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:40]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Loksins erum við komin í efnislega umræðu um það frumvarp sem liggur fyrir og það var gaman að hlusta á þingmanninn ræða um stjórnskipun og ýmis efnisatriði. Mig langaði að spyrja þingmanninn um skoðun hennar á því atriði sem er sett fram í skilabréfi sérfræðingahópsins um að erfiðara kunni að vera að mynda ríkisstjórn eða að ríkisstjórn sitji þegar gert er ráð fyrir auknu vægi persónukjörs og 5% þröskuldurinn sé lækkaður niður þannig að hugsanlega komist fleiri smærri flokkar eða jafnvel flokksbrot á þing.

Ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu og langar að heyra í þingmanninum um þetta atriði er að ég hef svolítið velt þessu fyrir mér eftir að við fengum skilabréfið í hendur. Ég er þessu ekki sammála og kannski finnst mér skýrasta dæmið um að það sé ekki erfiðara endilega að mynda ríkisstjórn eða halda ríkisstjórn þegar margir smærri flokkar eru á þingi. Við getum horft hér t.d. til Danmerkur þar sem eru ákveðnar blokkir, hægri blokk og vinstri blokk, og það eru jafnvel minnihlutastjórnir, sem er reyndar ekki gert ráð fyrir hér, og minni flokkarnir styðja meiri hlutann eða stjórnina.

Mig langar að vekja athygli á því að hér á Íslandi varð ríkisstjórnin minnihlutastjórn um daginn, en það gerðist ekkert, vegna þess að hér er lítill flokkur eða flokksbrot sem heitir Björt framtíð sem styður ríkisstjórnina.