141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:06]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að reyna að svara varðandi kjördæmaskipanina eins og hún er lögð upp hér með helmingi þingmanna eða svo í kjördæmum og síðan landslista og jöfnu vægi atkvæða þar á bak við. Það þarf ekki að þýða að það halli á hlut landsbyggðarinnar að því tilskildu að flokkarnir og kjósendurnir vilji hafa jöfnuð þar í. Auðvitað ræður útkoman úr kosningum því ef jafnt vægi atkvæða er á bak við þá þingmenn sem eru kjördæmabundir, en þá hverfur vissulega það misvægi sem er í dag á því hvar fulltrúar eru kjörnir þó að við höfum náð fullum jöfnuði á milli flokka. Það er eiginlega ekki hægt að gefa sér niðurstöðuna í því fyrir fram.

Varðandi hitt er auðvitað brúarsmíð í nokkrum tilvikum milli beins lýðræðis og þingræðis í frumvarpinu, það er ljóst, eins og þau ákvæði sem hv. þingmaður nefndi. Ég hef lengi verið talsmaður þess að við ættum að styðjast (Forseti hringir.) við beint lýðræði og við þurfum þá að þora að stíga inn á þá braut. Ég ætla að leyfa þessum tillögum að njóta vafans. Ég er tilbúinn að skoða þær og ég tel ekki (Forseti hringir.) endilega að þær séu þannig útfærðar hér að það geti ekki gengið.