141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:09]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Menn mega nú ekki leggja mér orð í munn eða gera mér upp skoðanir þó að ég hafi varpað fram spurningum sem tengjast tilteknum köflum í stjórnarskránni og gera mig þar með að samherja sínum í því að þetta sé allt saman ómögulegt. Það er ekki mín skoðun. Ég sagði þvert á móti að ég teldi þetta að uppistöðu til gott en að sjálfsögðu læt ég eftir mér að ræða og velta upp spurningum í tengslum við tiltekna þætti. Það er engu við það að bæta sem ég sagði þar um. Ég staldraði við á nokkrum stöðum og benti á að það vekti spurningar, svona sem innlegg í umræðuna og til skoðunar.

Ég vil alls ekki taka svo djúpt í árinni að segja að þarna hafi hlutir verið settir á blað af mikilli vanþekkingu eða hugsunarleysi. Ég ætla að segja við hv. þingmann og aðra: Þegar ég las frumvarpið í fyrsta skipti kviknuðu margar spurningar hjá mér og mér var jafnvel brugðið á köflum — bíddu, er þetta svona, já? Á að hafa þetta svona? Síðan las ég athugasemdirnar og þær svöruðu (Forseti hringir.) mjög mörgum af spurningum mínum þannig að ég var sáttur við.

Ég hvet því til þess að menn lesi ekki bara frumvarpið sjálft (Forseti hringir.) heldur athugasemdirnar líka, hafi ekki allir þingmenn gert það nú þegar.