141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni fyrir alveg ágæta ræðu. Hann sagði að við yrðum að hafa vilja til að ná saman. Kannski væri ágætt að við þingmenn settumst niður og athuguðum hvað er að núverandi stjórnarskrá, hvernig við gætum breytt henni og byrjuðum á því. Ég held að vandamál nefndar hv. þm. Jóns Kristjánssonar hafi einmitt verið að menn voru að reyna að ná heildarniðurstöðu af því að það er svo erfitt að breyta stjórnarskránni.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé skynsamlegt að breyta fyrst 79. gr. þannig að stjórnarskrárbreytingar yrðu auðveldari en þó með þröskuldum. Þá gætu menn tekið þetta stykki fyrir stykki. Fyrst það sem menn eru sammála um að þurfi að breyta, auðlindaákvæði o.s.frv., ná samstöðu um það og breyta því. Fá þjóðina til að samþykkja það með þeim þröskuldum sem þarf og taka svo næsta mál. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það gæti ekki verið ákveðin lausn.