141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:21]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er í sjálfu sér nokkuð hrifinn af þeirri lausn sem þar er valin varðandi handhafa eða staðgengil forsetans ef við viljum kalla það svo. Má ég minna á að ef ég hef tekið rétt eftir ber Alþingi að reyna að koma sér saman um forseta þannig að hann njóti stuðnings 2/3 þingmanna. Það gerir auðvitað ríkar kröfur til þess að sá maður sé með miklum ágætum og hafi breiðan stuðning hér á þinginu.

Einhver þarf nú að geta leyst forsetann af, það er held ég nokkuð ljóst. Við verðum að ganga einhvern veginn frá því, annaðhvort með því að kjósa varaforseta eða tilgreina þann annan aðila sem þar hleypur í skarðið. Mér finnst það betra fyrirkomulag, og eðlilegra að það sé þá forseti Alþingis, en núverandi fyrirkomulag þriggja handhafa. Ég geri ekki athugasemdir við það.

Þetta er kannski pínulítið í áttina að því sem ég játa mig hafa oft verið veikan fyrir, að kannski ætti forseti Alþingis Íslendinga að vera okkar lögsögumaður, lögmaður, þjóðhöfðingi.