141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir spurningarnar.

Til að skýra nánar hvað dýraverndarákvæðið er að mínu mati fáránlegt segir lögfræðiteymið um 36. gr. í nýrri greinargerð, með leyfi forseta:

„Af skýringum stjórnlagaráðs verður ráðið að markmið þess sé að leggja ákveðinn grunn að almennum lögum um dýravernd og vera stefnumarkandi á því sviði.“

Verið er að vísa í að við erum að sjálfsögðu með dýraverndarlög. Það eru almenn lög sem gilda fyrir dýr og það á ekki að binda ákvæði um dýravernd í stjórnarskrá. Það er algjört tabú að mínu mati.

Spurningin varðandi kosningaaldurinn er góð. Nei, að vísu er kosningakaflinn sem lagður var til í algjöru uppnámi og honum hefur verið breytt fram og til baka en ég hef ekki fyrr heyrt hugmyndir um að lækka beri kosningaaldurinn. Ég tel frekar að við ættum að samræma lögráðaaldur, kosningaaldur, (Forseti hringir.) áfengiskaupaaldur og bílprófsaldur í stað þess að þræla kosningaaldrinum niður í 16 ár.