141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er afar áhugaverð umræða sérstaklega ef við skoðum 6. gr. frumvarpsins sem ber yfirskriftina Jafnræði. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu,“ o.s.frv.

Þarna leggur stjórnlagaráðið til að allir skuli njóta jafnræðis vegna aldurs. Þá er mjög eðlilegt að verði þetta að nýrri stjórnarskrá beri löggjafanum líklega að leggja til breytingar á frumvörpum er varða þau aldursákvæði, sem var farið yfir í andsvari, og jafna það út. Það má ekki vera nokkurs konar mismunun. Þarna er t.d. gott dæmi sem ég var ekki búin að koma auga á að stangast á og er ekki í samræmi í frumvarpinu. Þess vegna er frumvarpið, virðulegi forseti, á engan hátt tilbúið til þess að verða afgreitt á fimm mánuðum.