141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:01]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Minn ágæti vinur hv. þm. Pétur Blöndal er íhaldsmaður af guðs náð og því eðli málsins samkvæmt yfirleitt skelfingu lostinn yfir öllum boðuðum breytingum. (PHP: Nei, það er ekki rétt.) Ég veit ekki hvað það er sem ég get sagt til að verða honum til einhverrar huggunar í þessum efnum. Það er búið að fara yfir þetta mál (PHB: Nei.) í bráð og lengd. Nú er efnislega umræðan sem hv. þingmaður hefur svo lengi kallað eftir og kvartað yfir að þyrfti að fara fram. Þá eigum við bara að hlusta hver á annan, skiptast á skoðunum. Það er eðlilegt. Það er ekkert óeðlilegt að menn séu ósammála. Menn nálgast stjórnmálin með mjög ólíkum hætti og það er kostur þess að búa í lýðræðissamfélagi. Það er eðlilegasti hlutur í heimi. En þegar menn ná ekki lengur saman og ná ekki að sætta ólík sjónarmið á einfaldlega að greiða atkvæði um hvaða leið eigi að fara.