141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:08]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er meira í höndum stjórnarandstöðunnar hversu langan tíma þarf í þetta. (Gripið fram í: Nú?) Já, ég er náttúrlega að leggja þessa tillögu fram þannig að það ber í sér að ég er sáttur við hana. Ég get þess vegna afgreitt hana strax. Ég er ánægður með þessi drög. Það sem ég var að segja í ræðu minni er að sé stjórnarandstaðan með hugmyndir um breytingar þá verðum við að hlusta á þær ef þær koma fram. Ef það er eitthvað sérstaklega sem þeir vilja reyna að nálgast okkur sem berum þessa tillögu fram þá eigum við að sjálfsögðu að taka þann tíma í það sem þarf. En ef umræðan er öll um það að ekki hafi farið fram nein efnisleg umræða, að ferlið sé óvandað, það þurfi að taka 6 til 8 vikur í umsagnir eða eitthvað slíkt þá held ég að það sé ekki eftir neinu að bíða í þessum efnum.

Eftir að hafa hlustað á sjónarmið stjórnarandstöðunnar í dag þá held ég, eins og ég sagði, að ekki sé svo langt á milli manna í þessum efnum. Ég held að þetta sé ekki óbrúanlegt. Við eigum að einbeita okkur að því sem við erum ósammála um og reyna að nálgast hvert annað.