141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:30]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna þeim merka áfanga sem er orðinn að staðreynd, hér er komið til 1. umr. í þingsal frumvarp um heildstæða endurskoðun og í raun algerlega nýja og framsýna stjórnarskrá fyrir lýðveldi okkar. Ég er stoltur af því að vera einn af flutningsmönnum þessa frumvarps.

Það er rétt að rifja upp í stuttu máli það ferli sem verið hefur allt frá því að þjóðin fékk lýðveldisstjórnarskrá sína í sumarbyrjun 1944. Í yfirlýsingu sem stjórnarskrárnefndin sem útfærði lýðveldisstjórnarskrána sendi frá sér segir, með leyfi forseta:

„Skilar nefndin með þessu stjórnarskrárfrumvarpi og greinargerð fyrri hluta þess verkefnis sem henni var falið en mun áfram vinna að seinni hluta verkefnisins, sem sé að undirbúa aðrar breytingar á stjórnskipulaginu er þurfa þykir og gera verður á venjulegan hátt. Þangað til því verki yrði lokið ætti sú stjórnarskrá sem hér er lögð fram að nægja.“

Þetta var árið 1944. Þáverandi þingmenn féllust á takmörkuðu breytingarnar á stjórnarskránni og voru þar að auki sammála um að stjórnarskrárnefndin héldi áfram starfi sínu eftir stofnun lýðveldisins. En þrátt fyrir að hafa einungis lokið helmingi fyrirætlaðs starfs lognaðist nefndin út af og lauk aldrei þeirri gagngeru endurskoðun sem hún sjálf taldi nauðsynlega. Heildarendurskoðun á stjórnarskránni átti að fara fram eftir að lýðveldisstjórnarskráin var sett árið 1944. Þeirri endurskoðun hefur hins vegar aldrei verið að fullu lokið.

Næst voru stjórnarskrárnefndir skipaðar 1947 og aftur 1972 en þær luku ekki störfum. Ný stjórnarskrárnefnd var skipuð 1978 sem sendi frá sér nokkrar skýrslur um málið og lagði fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá fyrir Alþingi árið 1983. Í því fólust verulegar breytingar en það náði ekki fram að ganga. Þrátt fyrir það hafa sumar greinar þess komist í framkvæmd í stjórnarskrárbreytingu eða með almennri lagasetningu.

Einstakar breytingar á stjórnarskránni hafa þó náð fram að ganga, oftast um tilhögun kosninga og kjördæmaskipan en einnig umfangsmeiri, svo sem endurskoðun á mannréttindakaflanum árið 1995 og á starfsháttum Alþingis 1991. Í ársbyrjun 2005 skipaði forsætisráðherra nefnd sem ætlað var að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins og árið 2007 skilaði nefndin áfangaskýrslu þar sem fram kom að hún þyrfti lengri tíma til að ljúka fyrirætluðum störfum. Ferlið sem hefur verið í þessu máli í framhaldi af efnahagshruninu haustið 2008 er öllum kunnugt.

Þau drög að stjórnarskipunarlögum sem stjórnlagaráð hefur unnið að eru mun ítarlegri en núgildandi stjórnarskrá. Hér er um að ræða 114 greinar sem auk aðfaraorða skiptast í níu kafla. Vinnulag stjórnlagaráðs byggði á opnu og gegnsæju ferli þar sem haldnir voru opnir fundir, mögulegt var fyrir almenna borgara að senda inn erindi og samræður fóru fram á netinu. Leiðarstefin sem stjórnlagaráð hefur haft í störfum sínum eru einkum þrjú: Valddreifing, gegnsæi og ábyrgð.

Í tillögum stjórnlagaráðs hafa ákvæði um mannréttindi verið endurskoðuð, réttur borgaranna gagnvart stjórnvöldum tryggður og ákvæði færð til nútímahorfs. Jafnræðisreglan er ítarlegri en í núgildandi stjórnarskrá og kveðið er á um réttindi barna. Meðal nýmæla eru ákvæði um náttúru Íslands, umhverfi og auðlindir þar sem kveðið er á um að þær séu eign þjóðarinnar. Meginform núgildandi stjórnskipulags helst hins vegar óbreytt. Stjórnarform landsins er lýðveldi, haldið er í þingræðisskipan og áfram byggt á þrígreiningu ríkisvaldsins.

Þá kýs Alþingi sér forsætisráðherra í kjölfar þingkosninga í stað þess að hann sé valinn af stjórnarflokkunum. Þá er tillaga um að tíu af hundraði kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt og tveir af hundraði kjósenda geti lagt fram þingmál á Alþingi. Með þessum breytingum, ef af verða, yrði Ísland meðal þeirra þjóða sem tryggja einna best rétt almennings til þátttöku í opinberum ákvörðunum og beint lýðræði aukið verulega.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fór ítarlega yfir fram komnar tillögur stjórnlagaráðs í fyrravetur. Fjölmargir sérfræðingar og umsagnaraðilar voru kallaðir fyrir nefndina. Ákveðnum ábendingum vísaði nefndin til frekari umfjöllunar og yfirferðar hjá stjórnlagaráði sem kom saman að nýju og skilaði inn viðbótaráliti í fyrravor. Í framhaldi af því lagði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fram lykilspurningar sem lagðar yrðu fyrir þjóðina til að fá mat hennar og álit á fram komnum tillögum stjórnlagaráðs. Eins og við þekkjum stóð upphaflega til að sú kosning færi fram samhliða forsetakosningum á sumri en málþóf á þingi dró þá atkvæðagreiðslu fram til 20. október.

Samhliða undirbúningi þeirrar atkvæðagreiðslu samþykkti meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að setja niður vinnuhóp sérfræðinga í lögum til að yfirfara og samlesa þann texta sem liggur nú fyrir í tillögum og greinargerð. Niðurstaða þeirrar vinnu liggur fyrir í þessu frumvarpi. Skerpt hefur verið á texta og áherslum, setning um endurráð og annað umorðað en meginstefna og áherslur í tillögum stjórnlagaráðs eru efnislega óbreytt í nánast öllum atriðum. Þá fylgir með ítarleg og vönduð greinargerð, samtals vel á þriðja hundrað þéttritaðar blaðsíður.

Það er mikilvægt að fá víðtæka og breiða efnislega umræðu um fram komnar tillögur og virkja allar þingnefndir og alla kjörna fulltrúa á Alþingi til að taka þátt í þeirri yfirferð og umfjöllun eins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, hefur lagt til og kynnti hér fyrr í dag. Það er skynsamlegt verklag, bæði tryggir það víðtæka aðkomu og umfjöllun út frá öllum sjónarhornum og mun einnig geta flýtt fyrir umræðu og afgreiðslu. Þjóðin hefur verið virkur þátttakandi í mótun og gerð þessara tillagna og Alþingi sem heild þarf að sama skapi að vera virkur þátttakandi í lokaafgreiðslu þessa máls.

Í skilagrein sérfræðinganefndarinnar eru ábendingar sem mikilvægt er að fara vel yfir og meta og skoða nánar í vinnunni fram undan. Þar er meðal annars vikið að skyldum einkaaðila varðandi mannréttindi, mögulegum áhrifum þess að fella alfarið niður þröskulda í kosningalögum, lagalegri ábyrgð forseta og hlutdeild í löggjafarvaldi, sjálfstæði tiltekinna ríkisstofnana, ákvæði um sérdómstóla og ýmsum öðrum atriðum sem vert er að fara yfir og skoða.

Þá er einnig ljóst að yfirfara þarf einstakar orðalagsbreytingar og umorðanir á upphaflegum texta stjórnlagaráðs og skoða gaumgæfilega þannig að almennur skilningur sé skýr og ótvíræður.

Viðbrögð og ummæli formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hafa talað hér í dag komu því miður ekki á óvart. Ég vildi trúa því að nú þegar fyrir liggur niðurstaða úr þjóðaratkvæðagreiðslu með skýrum vilja þjóðarinnar til að fylgja þessum málum eftir og að auki vönduð og ítarleg yfirferð lögfræðihópsins væri almennur vilji á þingi til að taka upp efnislegar og málefnalegar umræður um stjórnarskrármálið. Það virðist hins vegar allt við það sama af hálfu forustumanna þessara flokka. Það er andstaða við breytingar. Við upplifðum þetta skýrt í fyrravor og fyrravetur þegar hér var andóf til að koma í veg fyrir umræðu og umfjöllun, andóf til að koma í veg fyrir að þjóðin fengi að segja hug sinn í þessu máli, andóf sem byggði á tæknilegum áherslum og formsatriðum, andóf þar sem kvartað var undan því að málið fengi ekki að koma inn í þingsal til efnislegrar umræðu.

Nú er hins vegar búið að snúa málinu við. Nú er frumvarpið sem hér liggur fyrir ekki tækt til umfjöllunar af því að það vantar frekari úttektir, það vantar meiri yfirlestur, það vantar frekara mat og það vantar frekara álit. Formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, sagði í umræðum fyrr í dag og lýsti því yfir að að sínu mati væri óraunhæft að ljúka þessu máli fyrir lok þinghalds næsta vor. Ég fagna því hins vegar að það var greinilegur munur á því sem kom fram í máli formannsins og varaformanns flokksins, hv. þm. Ólafar Nordal, sem opnaði í umræðunni í dag fyrir málefnalegar og efnislegar umræður.

Í stað þess að fara í þá efnislegu umræðu sem þörf er á að þingið taki fyrir á næstu dögum, vikum og mánuðum sýnist mér að verið sé að leita leiða til að koma í veg fyrir það með ýmsum hætti. Nú er hins vegar rétti tíminn til að taka þessa efnislegu umræðu og draga fram öll efnisleg álit og skoðanir. Ég kalla eftir að boðaðar tillögur þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem lýstu því yfir fyrr í þessari umræðu í haust og sumar að lagðar yrðu fyrir þingið, komi á dagskrá. Af hverju sýna menn ekki á spilin? Hvernig á að vera hægt að ná fram umræðu og leita samráðs og samkomulags ef aðilar eru ekki reiðubúnir að taka þátt í umræðunni og leggja fram tillögur sínar?

Hv. þm. Pétur Blöndal hefur lagt einn og sér fram ítarlegar athugasemdir og tillögur sem er vert að gefa gaum og fara yfir í þeirri efnislegu umræðu sem við eigum eftir að taka hér. Ég kalla að sjálfsögðu eftir því að aðrir þeir sem hafa komið inn í umræðuna og haft uppi umvandanir og átalið það að tíminn hafi ekki verið nýttur eins og kostur væri til að fara í þessa umræðu séu þá tilbúnir að sýna tillögur sínar og leggja þær inn í umræðuna.

Það hefur komið fram að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun óska eftir mati og umsögn frá svokallaðri Feneyjanefnd Evrópuráðsins. Slíkt mat er mikilvægt í þeirri yfirferð sem nú er fram undan og í skilabréfi sérfræðinganefndarinnar er einnig vikið að nokkrum mikilvægum álitaefnum sem rétt er að lögð verði sérstök áhersla á að fara yfir á eins ítarlegan máta og kostur er. Það er dálítið sérkennilegt að hafa fylgst með umræðunni í dag, nú þegar við erum að taka þetta mál fyrir, og sjá að nú má að mati sumra ekki taka þetta mál til þeirrar efnislegu umræðu sem þörf er á vegna þess að það þarf að fara með þetta allt í ítarlegt álagspróf.

Í umræðunni hefur fram til þessa verið lagt upp með að hér væri villandi umræða, illa orðaðar spurningar sem ætti að leggja fyrir þjóðina sem hún skildi ekki og við værum að fara í einhverjar platkosningar. Það er allt fyrir bí vegna þess að umræðan var að sjálfsögðu upplýsandi. Þjóðin skildi vel um hvað var spurt og úrslitin í þjóðaratkvæðagreiðslunni voru skýr og leiðbeinandi fyrir framhald málsins.

En hvað er næst? Jú, það þarf að leita nýrra vopna. Nú er hættan sú samkvæmt þeirri umræðu sem sérskipaðir sérfræðingar hafa verið með á lofti að þjóðfélagið muni ekki þola svo stórkostlegar breytingar sem ný stjórnarskrá mun hafa í för með sér. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir nefndi áðan ringulreið og réttaróvissu, að lýðræðislegur réttur almennings og áhrif væru að verða of mikil, forsetinn væri að fá of mikil eða hugsanlega líka of lítil völd, að umboð og staða Alþingis væri að breytast og umbyltast gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Stöldrum aðeins við. Hvaða álag þoldi gildandi stjórnarskrá frá árinu 1944 sem var sett til bráðabirgða á sínum tíma og átti að endurskoðast og aðlagast íslenskum aðstæðum strax á fyrstu árum nýja lýðveldisins? Hvað hefur sagan kennt okkur á þeim nærri sjö áratugum sem liðnir eru með nær óbreytta stjórnarskrá? Hvar hafa veikleikarnir verið? Hverju er verið að mæta með þeim tillögum sem liggja núna fyrir í frumvarpsformi að nýrri stjórnarskrá? Er ekki einmitt verið að taka á þeim veikleikum með breyttum áherslum í tillögum varðandi það að efla og styrkja rétt almennings til áhrifa, koma á hreint hver staða og hlutverk forseta Íslands er, styrkja stöðu Alþingis sem löggjafa og eftirlitsaðila gagnvart framkvæmdarvaldinu og tryggja aukið réttlæti, gegnsæi og jafnrétti í íslensku samfélagi? Hvað er að óttast og hvað er það sem samfélagið mun ekki þola? Eru það aukin áhrif almennings til lýðræðislegrar þátttöku og ákvarðanatöku? Er það jöfnun kosningarréttar og aukið valfrelsi kjósenda? Er það styrkara og betra Alþingi? Er það meira gegnsæi með bættu aðgengi að upplýsingum og stjórnkerfi? Er það aukið réttlæti, m.a. með sameign þjóðarinnar á auðlindum til lands og sjávar?

Síðast en ekki síst eru stóraukin efnahagsleg, félagsleg og menningarleg mannréttindi sem snúa meðal annars að heilbrigðisþjónustu, menntun, jafnrétti kynslóðanna, þróun samfélagsins og friði. Hverjir óttast um hag sinn og stöðu? Kannski þeir sem hafa haft áhrif og völd langt umfram það sem eðlilegt er, þeir sem hafa ráðið ferðinni, lagt línurnar og stjórnað á bak við tjöldin.

Það er líka athyglisvert að horfa til þess sem hefur komið fram í umræðunni og var endurtekið af hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir stuttu, að komist á breytt hlutföll eftir kosningar næsta vor sé einboðið að sú stjórnarskrá sem hugsanlega, væntanlega og vonandi verður afgreidd frá þingi á vordögum verði ekki staðfest á nýju þingi. Menn skilja áður en skellur í tönnum. Það er ljóst að menn gefa með þessum boðskap það upp að beitt verði þeim ráðum sem menn hafa tök á komist þeir til áhrifa til að vinna gegn þeim vilja sem hefur skýrt komið fram, m.a. í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir skömmu, vilja þjóðarinnar til breytinga í þessum efnum. Þá er ágætt að þjóðin gangi að því vísu í kosningunum eftir örfáa mánuði að stjórnarskrármálið verður eitt af okkar stóru kosningamálum, ef ekki það stærsta. Stjórnarskrárbreytingar munu ekki ná í gegn öðruvísi en að við fáum þá nýju stjórnarskrá staðfesta á nýju þingi.

Ég hvet hins vegar til þess að við náum saman í þinginu (Forseti hringir.) um þá efnislegu umræðu, um þá hluti sem þarf að fara í gegnum, um þær ábendingar og athugasemdir sem liggja fyrir, og vinnum saman af heilindum til að ná sátt og samkomulagi um þá mikilvægu (Forseti hringir.) hluti sem á að byggja á í þeirri nýju stjórnarskrá sem þetta Alþingi, (Forseti hringir.) væntanlega og vonandi, mun afgreiða frá sér fyrir vorið.