141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að öðru slepptu vildi ég geta þess að það vinnulag sem hefur verið kynnt í þessari umræðu af hálfu talsmanna meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, um að aðrar nefndir þingsins komi að einstökum þáttum, er ekki að mínu mati það heildarmat á áhrifum tillagna stjórnlagaráðs sem talað er um í niðurstöðubréfi sérfræðihópsins. Það er ekki að mínu mati skipulagt heildarmat af því tagi sem við erum vön að gera kröfu um til lagafrumvarpa. Það kemur til viðbótar. Sú ágæta hugmynd að einstakar nefndir þingsins fjalli um ákveðnar greinar eða ákveðna kafla er fín, en hún kemur ekki í staðinn fyrir þetta skipulagða heildarmat sem talað er um.

Feneyjanefndin er fín og gott að fá hennar álit en það er ekki verið að vísa til hennar þessu heildarmati. Lögfræðingahópurinn (Forseti hringir.) talar um þetta sem tvo aðskilda þætti og þess vegna spyr ég hv. þingmann (Forseti hringir.) um afstöðu hans til heildarmats af þessu tagi, mats á áhrifum tillagna. Það er (Forseti hringir.) löng hefð fyrir því hér á landi að áhrif lagabreytinga séu metin. (Forseti hringir.) Það er í handbókum og í leiðbeiningum núverandi ríkisstjórnar og víðar er talað um mat á áhrifum lagafrumvarpa. Slíkt mat hefur ekki farið fram á þessu þingi.