141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að biðja hv. þingmann að gera sjálfum sér þann greiða og okkur hinum líka að vera ekki með útúrsnúninga og mælskubrögð í þessu máli. Við höfum einfaldlega kallað eftir svörum um hvort hv. þingmaður sé ekki sammála lögfræðingahópnum um að fram þurfi að fara heildarmat. Þá þýðir ekki að vera með útúrsnúninga eins og hv. þingmaður var með.

Við þurfum að fara vel niður í einstök efnisatriði og það munum við væntanlega gera. Það breytir ekki því að hið raunverulega heildarmat þarf engu að síður að fara fram. Við höfum stanslaust kallað eftir því að hér gæti farið fram efnisleg umræða. Hún á sér núna stað. Ég var með þessu andsvari auðvitað ekki að hefja mína efnislega umræðu. Skárra væri það ef ég ætlaði að láta hana standa bara í tvær eða þrjár mínútur. Ég var einfaldlega að reyna að átta mig á vilja hv. þingmanna stjórnarliðsins til að þessi málefnalega umræða leiddi til einhverrar niðurstöðu.

Ég spurði hv. þingmann áðan: Ef við erum í efnislegri umræðu, málefnalegri umræðu, er hv. þingmaður ekki þar með að segja að sú efnislega og málefnalega umræða eigi að leiða til einhverrar niðurstöðu (Forseti hringir.) og að sú niðurstaða kunni meðal annars að fela í sér verulegar breytingar ef hún hefur það í för með sér á þessu frumvarpi? (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður ekki að segja að við séum ekki bundin af niðurstöðunni eins og hún liggur fyrir í frumvarpinu?