141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna. Mig langar til að hann fari í andsvari sínu yfir þá nýjung sem lagt er til að fari inn í stjórnarskrá Íslands um hin svokölluðu þriðju kynslóðar réttindi sem hafa verið í umræðunni í dag og virðast ekki mæta miklum skilningi. Fólk áttar sig ekki á því hvað verið er að gera mikla grundvallarbreytingu á stjórnarskránni. Þarna er ég að vísa í náttúruverndarákvæðin og vernd dýra en mig langar líka til að spyrja þingmanninn hvaða álit hann hafi á því að leggja til að bylta stjórnarskránni með þessum hætti. Það er vísað í stjórnarskrár annarra ríkja, Suður-Afríka minnir mig að sé nefnd í þessu tilfelli, og ég upplifi þetta frumvarp á þann hátt að það sé brot af því besta úr mörgum stjórnarskrám og tekin ákvæði frá mismunandi löndum inn í þetta frumvarp.

Það er vísað mjög til þýsku stjórnarskrárinnar varðandi ákveðin atriði en Þjóðverjar settu sér nýja stjórnarskrá eftir hinn svokallaða Hitlerstíma sem var hörmungarástand hjá þeim og þeir áttu lífið að leysa við að endurreisa samfélag sitt eftir þá hörmungartíma sem gengu yfir. Telur þingmaðurinn að það gangi upp að blanda saman stjórnarskrá svona margra landa, setja í eitt plagg og leggja til að verði ný stjórnarskrá Íslands?