141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:34]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann út í það sem hann kom inn á í lokaorðum ræðu sinnar, og hafði auðsjáanlega ekki tíma til að fara betur út í. Það snýr að 111. gr. þessara tillagna stjórnlagaráðs og þessa frumvarps til stjórnarskipunarlaga um framsal ríkisvalds þar sem opnað er á að heimilt sé að gera þjóðréttarsamninga sem feli í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana. Það skuli þó vera afturkræft og skuli borið undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvað honum fyndist um þessa grein. Hann byrjaði að ræða þetta í máli sínu. Telur hv. þingmaður að fullveldið sé nægilega vel varið í þessari grein? Hvað mundi hv. þingmaður vilja hafa öðruvísi í þessari grein? Það væri mjög fróðlegt ef þingmaðurinn gæti komið inn á niðurstöðu sérfræðingahópsins í þessa veruna.

Mig langar síðan að biðja hv. þingmann að tvinna inn, ef tími vinnst til, það sem kemur fram í 67. gr. þar sem talað er um að einstaklingar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðna þætti. Í þeirri grein segir, með leyfi forseta:

„Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt.“

Ef stórir málaflokkar falla undir fullveldisafsal, eins og t.d. Evrópusambandsaðild, sem nær yfir mjög marga málaflokka samfélagsins, skilur hv. þingmaður 67. gr. þá þannig að ekki sé hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um nein málefni er heyra undir slíka samninga? Það eru þá engin lög sem heyra undir slíka samninga. Telur hv. þingmaður að hugsanleg úrsögn úr Evrópusambandsaðild — að þjóðin gæti ekki krafist slíkrar atkvæðagreiðslu vegna 67. gr.? Gæti hv. þingmaður farið yfir þessar tvær greinar, svona velt þessu upp.